141. löggjafarþing — 66. fundur,  16. jan. 2013.

störf þingsins.

[15:20]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf):

Frú forseti. Það væri gaman að hefja sig á flug í ESB-órunum með þá menn sem hafa það mál einna helst á heilanum en við í ríkisstjórnarflokkunum höfum verk að vinna, einmitt með aðilum vinnumarkaðarins í nánu samstarfi, og erum að fjölga störfum í landinu. Af því tilefni hef ég ákveðið að koma hingað upp í dag.

Fyrir jól tókum við mjög ánægjulegar ákvarðanir um breytingar á lögum um atvinnuleysistryggingar sem liðkuðu fyrir verkefninu Liðsstyrk sem mun á þessu ári búa til 2.200 tímabundin störf, auk þess sem það verða tækifæri fyrir þá sem þurfa á starfsendurhæfingu að halda. Hrunið olli, eins og allir vita, gríðarlegri lífskjaraskerðingu á Íslandi vegna þess að fólk missti vinnuna, fyrirtæki voru ekki í færum til að fara í fjárfestingar, ráða til sín fólk og auka laun og klyfjarnar á ríkissjóð ollu því að við þurftum að halda mjög að okkur höndum og skera niður. Frá hruni höfum við markvisst unnið að uppbyggingu hér í landinu og hægt og bítandi höfum við verið að ná frábærum árangri.

Atvinnuleysi mældist nú í desember um 5,6% sem er auðvitað allt of mikið þó að við höfum náð árangri. Þess vegna hefur ríkisstjórnin í samstarfi við Samband íslenskra sveitarfélaga og fleiri aðila farið í það verkefni að búa til störf fyrir fólk sem er að detta út úr bótakerfinu vegna langtímaatvinnuleysis. Það er gríðarlega mikilvægt fyrir fólk að fá tækifæri til að komast aftur út á vinnumarkað og líklegra að það nái fótfestu þar aftur.

Sveitarfélögin leggja til 660 störf, ríkið 220 en hinn almenni vinnumarkaður 1.320. Svona starfar ríkisstjórn í samvinnu við aðila vinnumarkaðarins til þess (Forseti hringir.) að efla íslenskt efnahagskerfi og auka lífsgæði íbúanna. (Gripið fram í: Húrra.) (Gripið fram í: Heyr, heyr.)