141. löggjafarþing — 66. fundur,  16. jan. 2013.

störf þingsins.

[15:30]
Horfa

Magnús Orri Schram (Sf):

Virðulegi forseti. Menn ræða hér stöðu ESB-aðildarviðræðna og það er rétt að árétta við þingheim að yfirlýsingin liggur nokkuð ljós fyrir. Hægja ber á viðræðunum og láta stórar ákvarðanir um samningsafstöðu bíða nýrrar ríkisstjórnar.

Menn spyrja í þessum þingsal: Er þetta kosningamál? Ég tel nokkuð ljóst að kjósendur þann 27. apríl nk. muni taka ákvarðanir sínar í kjörklefunum byggðar á þeirri stefnu sem flokkarnir munu birta hvað næstu skref varðar, íslensk efnahagsmál, atvinnumál, málefni fjölskyldna o.s.frv. Hvaða stefnu hefur þú, ágæti stjórnmálaflokkur, um hvert beri að halda? Hvaða hugmyndir hefur þú fram að færa?

Að því leytinu til verður Evrópusambandið og afstaða til aðildarviðræðna kosningamál, já, því að um leið tekur fólk afstöðu til vaxta, verðtryggingar, atvinnulífs, byggðamála o.s.frv.

Mér finnst umræðan hér um þessa yfirlýsingu sýna vel, virðulegi forseti, að pólitísk umræða á Íslandi snýst oft um form, um ferli, ekki um efni eða innihald. Ég vil gjarnan ræða efni málsins. Hvað felst í aðild að Evrópusambandinu? Hvernig er samningsafstaða okkar að teiknast upp í þeim köflum sem hafa verið opnaðir og þeim sem hefur nú þegar verið lokað? Af hverju erum við ekki að ræða efni og innihald aðildarviðræðna við Evrópusambandið?

Það virðist vera þannig að þeir sem eru á móti aðild að Evrópusambandinu vilji ekki ræða efni samningsins. Það sýnir vel sú harða afstaða sem birtist hér í þingsal hvað snertir þann rétt sem þjóðin á, að fá að taka afstöðu til aðildar að Evrópusambandinu þegar efni samnings liggur fyrir. Förum að ræða efni en ekki feril eða form. Þjóðin á rétt á því og þann rétt verðum við að veita henni. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)