141. löggjafarþing — 66. fundur,  16. jan. 2013.

störf þingsins.

[15:32]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Hv. þm. Magnús Orri Schram þarf ekki að vera undrandi á því að hér sé ákveðin umræða um form í framhaldi af yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar frá því á mánudaginn. Sú yfirlýsing snýst einmitt um form, hún snýst um það að ekki verði opnaðir fleiri samningskaflar fyrir kosningar. Þegar hlustað er á þingmenn stjórnarflokkanna tala um málið í kjölfar þessarar yfirlýsingar er ekki alveg einfalt að átta sig á því hvort um er að ræða einhverja tímamótayfirlýsingu eða hvort eingöngu er um það að ræða að viðurkenna það, sem hvort sem er er staðreynd, að samningsafstaða liggur ekki fyrir í mikilvægustu og erfiðustu köflunum í þessum viðræðum.

Ef ríkisstjórnin hefði lagt fram samningsafstöðu í sjávarútvegsmálum og landbúnaðarmálum gætum við rætt um efni hennar. En það er meðvituð ákvörðun ríkisstjórnarinnar að fresta því að sýna á spilin í þessum erfiðustu köflum viðræðnanna fram yfir kosningar. (Atvvrh.: Það er ESB sem tefur sjávarútvegsmálin.) Sagt er að ESB tefji sjávarútveginn. Það kann að vera, ég veit það ekki. Það hefur ekki komið skýrt fram. (Gripið fram í: … með landbúnaðinn?) Yfirlýsingar á síðasta ári gengu út á að samningsafstaða Íslands í sjávarútvegsmálum og landbúnaðarmálum mundi liggja fyrir með góðum fyrirvara fyrir kosningar. Margítrekaðar yfirlýsingar utanríkisráðherra voru á þann veg að afstaða Íslands — við vitum ekkert um afstöðu ESB — í sjávarútvegsmálum og landbúnaðarmálum mundi liggja fyrir með góðum fyrirvara fyrir kosningar þó að þegar komið var fram á síðasta ár væri viðurkennt að viðræðum yrði ekki lokið um þá kafla.

Það var alltaf sagt: Það verður sýnt á spilin í sjávarútvegsmálum og landbúnaðarmálum fyrir kosningar. Afstaða ríkisstjórnarinnar er sú að gera það ekki núna og við veltum fyrir okkur hvort það gerist vegna náttúrulegra tafa, sem ríkisstjórnin hefur ekki vald á, eða hvort það er einhver pólitík í því til þess að gera Vinstri hreyfingunni (Forseti hringir.) – grænu framboði lífið léttara (Forseti hringir.) í þessu erfiða máli fram að kosningum.