141. löggjafarþing — 66. fundur,  16. jan. 2013.

úthlutun aflamarks í ýsu á þessu fiskveiðiári.

[15:49]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Eins og fram hefur komið er það vandamál sem hér er rætt um ekki nýtt af nálinni. Það hefur legið fyrir býsna lengi að þessi vandi væri til staðar. Hér var vitnað til bréfaskrifta, m.a. frá Drangsnesi, og á daginn hefur komið að allar athugasemdir voru réttmætar. Það hlýtur því að vera spurning til hæstv. ráðherra hvort ekki sé rétt að hraða mjög þeim viðbrögðum sem ráðherra hyggst grípa til.

Hæstv. ráðherra sagði að skoða þyrfti þessi mál og ræða þau við hlutaðeigandi aðila og ég hvet hæstv. ráðherra til að gera það mjög hratt vegna þess að ef á að grípa inn í núna með einhverjum hætti þarf að gera það sem allra fyrst. Við sjáum að þeir sem eru að reyna að standa sig í þessu, ef má orða það þannig, leigja til sín heimildir á miklu hærra verði en þeir geta síðan selt á. Þar á munar allt að 45 kr. Við sjáum líka að menn sigla langt út til að reyna að forðast ýsuna, til að reyna að ná í þorskinn, og það skapar að sjálfsögðu áhættu líka, eins og allir vita, þegar um minni báta er að ræða.

Ég tek undir með þeim sem hafa sagt að það þurfi að sjálfsögðu að fara yfir þær aðferðir sem Hafrannsóknastofnun notar við að meta stofnstærðina. Það er allt í lagi að fara yfir þær og endurskoða. Það er ekki þar með sagt, og ég held að enginn sé að segja það, að Hafrannsóknastofnun eigi að hætta að sinna hlutverki sínu. Það er samt allt í lagi að fara yfir hlutina og athuga hvernig málin standa, hvort hægt sé að gera betur. Það munar svo hrikalega miklu á því sem sjómenn halda fram og því sem Hafrannsóknastofnun les úr sínum gögnum.

Við þurfum að vinna þetta mjög hratt. Við þurfum að grípa inn í. Það hlýtur að vera vilji allra sem sitja á Alþingi að bregðast við þannig að í fyrsta lagi stoppi veiðarnar ekki og í öðru lagi sé ekki búið til einhvers konar andrúmsloft sem fer illa með þann afla sem er verið að veiða. Það getum við ekki hugsað okkur.