141. löggjafarþing — 66. fundur,  16. jan. 2013.

skiptaverðmæti og greiðslumiðlun innan sjávarútvegsins.

417. mál
[16:13]
Horfa

atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Svarið við fyrri spurningunni er já, það er mat okkar að þetta bráðabirgðaákvæði standist, fyrst og fremst vegna þess að það er valkvætt og það byggir á umboði frá viðkomandi aðilum þannig að það er engin þvingun í því fólgin. Það er í reynd ekki fjarri þeirri framkvæmd sem menn hafa reynt að viðhafa eftir að hæstaréttardómurinn féll. Ef ég skil það rétt hafa menn farið þá leið og lögin eru í gildi, ekki hefur náðst niðurstaða í því hvort fella eigi þau úr gildi eða breyta þeim. Lögin eru því í gildi og framkvæmdin verður að vera samkvæmt þeim, en það er öllum ljóst að það ástand er í raun ólögmætt.

Tekið er við greiðslunum en síðan eru þær endurgreiddar til þeirra sem sagt hafa sig úr samtökum og ekki vilja taka þátt í slíku. Hið valkvæða fyrirkomulag yrði því ekkert langt frá þeirri framkvæmd sem menn hafa verið að reyna að ástunda til að hafa ástandið þó eins nærri því og rétturinn ætti að vera, samanber niðurstöðu Hæstaréttar. Það er mat lögfræðinga að þessi útgáfa, þessi aðlögun fái staðist. Landssamband smábátaeigenda telur hana sjálfsagt ekki fullnægjandi en það er mat okkar að erfitt sé að ganga lengra eigi yfir höfuð að reyna að búa til einhverja aðlögun af þessu tagi.

Varðandi verðmyndunarþáttinn og verðlagningu í viðskiptum tengdra aðila er það vel þekkt mál og hefur verið talsvert á dagskrá, bæði eftir athugun Samkeppniseftirlitsins og eins hefur návígi við kjarasamninga milli sjómanna og útgerða kallað á það. Við höfum átt ágætisfundi, ekki síst með sjómönnum og sjómannasamtökunum um það mál og hefur verið ráðist í vissar aðgerðir til að styrkja starfsemi Verðlagsstofu skiptaverðs. Það er liður í því að reyna að treysta þessa framkvæmd, en ljóst að margir vilja ganga lengra í þeim efnum og mynda virkari verðviðmiðun á markaði. En málið er vel þekkt og er meðal annars í skoðun hver viðbrögð ráðuneytisins verða í kjölfar álits Samkeppniseftirlitsins sem kom til okkar í desemberbyrjun, ef ég man rétt.