141. löggjafarþing — 66. fundur,  16. jan. 2013.

skiptaverðmæti og greiðslumiðlun innan sjávarútvegsins.

417. mál
[16:16]
Horfa

atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Varðandi enn og aftur fyrri spurningu hv. þingmanns er frumvarpið samið með aðstoð lögfræðinga, ef ekki af lögfræðingum, þannig að það hefur verið legið dálítið yfir því. Það var velt upp leiðum sem velja þurfti á milli. Ein af þeim var að fella lögin einfaldlega í heild sinni úr gildi og hafa enga aðlögun. Önnur var að ganga lengra í átt til þeirra sjónarmiða sem Landssamband smábátaeigenda hefur lagt áherslu á og hafa einhvers konar varanlega útgáfu af greiðslumiðlun, reyna að finna leiðir til að viðhalda henni. Þriðja leiðin sem er hér mitt á milli er sú að útbúa valkvæða aðlögun. Það er talið að hún standist og hún er hér valin.

Ég get ekki fullyrt hvort frumvarps sé að vænta eða breytinga á lögum sem tengjast beint verðmyndunarmálunum. Við höfum gripið til ýmissa ráðstafana sem styrkja framkvæmdina og auka við bæði mannafla og upplýsingar til Verðlagsstofu skiptaverðs. Það er skref í rétta átt en málið er í skoðun og það er ekki hægt að útiloka að það verði niðurstaða ráðuneytisins að það kalli á einhverjar lagabreytingar að mæta til fulls niðurstöðu Samkeppniseftirlitsins.