141. löggjafarþing — 66. fundur,  16. jan. 2013.

skiptaverðmæti og greiðslumiðlun innan sjávarútvegsins.

417. mál
[16:18]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka hæstv. ráðherra fyrir yfirferðina á málinu, ég fagna því að þetta mál er komið fram. Hæstv. ráðherra fór yfir það líka og það kemur mjög fram í greinargerðinni sem fylgir því hvers vegna menn fara þá vegferð eftir hæstaréttardóma sem hafa fallið. Þetta hefur verið alveg ótrúlegt flækjustig þar sem verið er að taka annars vegar 8,4% af heildaraflaverðmæti viðkomandi skipa og setja inn í greiðslumiðlunarfyrirkomulagið og deila því út á þrjá staði þar og hins vegar er þetta ógurlega mikil vinna og vesen í kring að stemma þetta allt saman af.

Hæstv. ráðherra fór í andsvari áðan aðeins yfir það sem snýr að þessu bráðabirgðaákvæði sem gildir til þriggja ára, um að ákveðnum bátum eða skipum sé heimilt að óska sérstaklega eftir því, það sé algjörlega valkvætt eins og ég skildi hæstv. ráðherra og það kemur eiginlega mjög skýrt hér fram.

Þótt ég fagni frumvarpinu hef ég ákveðnar spurningar við þá aðferð sem hér er valin. Ég geri svo sem ekki stóran ágreining um það vegna þess að þetta er valkvætt ákvæði og þarna er farið bil beggja. Telur ráðherrann kannski æskilegt eða eðlilegt að sérstök lög snúi að þessum minni bátum, að þeir geti óskað eftir því að setja 0,5% af verðmæti til þess að standa undir hagsmunasamtökum viðkomandi skipa? Stingur ekki aðeins í stúf að fara þá leið? Þá væri allt eins ástæða til að hafa það á mörgum öðrum stöðum.

Ég geri mér hins vegar grein fyrir því að þetta er valkvætt og verið er að bregðast við sjónarmiðum beggja aðila. Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra aðeins út í það.