141. löggjafarþing — 66. fundur,  16. jan. 2013.

skiptaverðmæti og greiðslumiðlun innan sjávarútvegsins.

417. mál
[16:24]
Horfa

atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Þetta er angi af stórri umræðu ef út í það væri farið. Í mínum huga er málið ekki svona svart/hvítt eins og hv. þingmaður stillir því upp. Þessir hlutir eru ekki endilega allir sambærilegir með þeim hætti sem hann bar þá saman. Iðnaðarmálasjóðsgjaldið var fyrst og fremst fellt á því að lögin sem um það giltu, rökstuðningurinn fyrir því, ráðstöfun fjárins og fleira í þeim dúr, var ekki í nægjanlega skýru samhengi og með nægjanlega afmarkaðan tilgang þannig að hann réttlætti það að tengja saman aðildina og réttindi og skyldur sem henni tengjast. Það er ekki óheimilt að tengja tiltekin réttindi við aðild að félögum og um búnaðarmálasjóðsgjaldið gegnir nokkuð öðru máli. Þegar þau lög eru borin saman við eldri lögin um iðnaðarmálasjóðsgjaldið kemur í ljós mismunur sem gerir það að verkum að búnaðargjöldin eru miklu nær því að mæta öllum þeim sjónarmiðum sem dómstólar hafa kveðið upp úr um að þurfi að vera til staðar til að slík félagsaðild sé andlag þess að taka gjöld og ráðstafa þeim í skýrum og lögmætum tilgangi.

Enn lengra í burtu eru að mínu mati stéttarfélögin og það mikilvæga hlutverk sem þau hafa með höndum og réttur launamanna líka til þess að bindast samtökum og binda við það ákveðin réttindi og ákveðnar skyldur. Hv. þingmaður fær mig því ekki til þess að kveða hér upp úr um það að þetta sé allt saman sambærilegt. Það geri ég ekki og þykist vita að fyrir því séu ýmis lögfræðileg rök og jafnvel dómafordæmi að menn megi ekki alhæfa út frá því að við höfum lent í árekstrum í vissum tilvikum eins og þessu og eins og með iðnaðarmálasjóðsgjaldið. Þá ber að horfast í augu við það og bregðast við því af því að við ætlum okkur að hafa lög í samræmi við stjórnarskrá.