141. löggjafarþing — 66. fundur,  16. jan. 2013.

skiptaverðmæti og greiðslumiðlun innan sjávarútvegsins.

417. mál
[16:27]
Horfa

atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég held að það sé alveg ljóst að félagafrelsisákvæði stjórnarskrárinnar, þ.e. réttur manna bæði til að stofna félög og samtök og líka til að standa utan slíkra, geri það að verkum að það verður að gera mjög ríkar kröfur til rökstuðnings, að það sé í þágu almannahagsmuna og mikilvægra hagsmuna sem séu réttmætir og geri það kleift gagnvart stjórnarskránni að tengja saman aðild að félögum og tiltekin réttindi og tilteknar skyldur sem því tengjast. Þetta gerir vissulega ríkar kröfur, ég er sammála hv. þingmanni um það, en það er ekki þannig að það sé ekki hægt. Fyrir því held ég að séu dómafordæmi á hina hliðina. Þegar skoðað er hvað hefur fellt þau mál sem fallið hafa er það yfirleitt það að mönnum hefur ekki tekist að rökstyðja nægjanlega vel að þetta væri þarft, óumflýjanlegt, nauðsynlegt eða að ríkir almannahagsmunir tengdust því. Lagaákvæðin hafa verið ófullkomin og óskýr eða það hefur ekki verið samhengi á milli rökstuðningsins fyrir gjaldtökunni og síðan ráðstöfun fjármunanna sem komið hafa inn í gegnum gjaldtökuna (Forseti hringir.) eins og átti sérstaklega við um iðnaðarmálagjöldin.