141. löggjafarþing — 66. fundur,  16. jan. 2013.

skiptaverðmæti og greiðslumiðlun innan sjávarútvegsins.

417. mál
[16:28]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Það er alveg rétt sem hæstv. ráðherra sagði áðan, þetta mál er ekki aldeilis nýtt af nálinni og hefur nú rekið á fjörur okkar ýmissa á ýmsum tímum. Sannleikurinn er sá að þessi mál hafa líka verið að þróast töluvert á síðustu árum. Ég held að ekki sé ástæða til að gera lítið úr því að við erum í raun og veru að takast á um þetta mál núna í öðru umhverfi en við vorum að fjalla um það fyrir fáeinum árum.

Ég vil segja það út af þessu frumvarpi að viðtökur mínar við því eru almennt jákvæðar. Auðvitað má velta fyrir sér einstökum þáttum þess, en viðtökur mínar við þessu máli eru fremur jákvæðar. Ef við ræðum aðeins um greiðslumiðlunina almennt var það þannig að þegar lögin um hana voru sett var mat þeirra sem settu þau, og margra hagsmunaaðila hygg ég líka, að fyrirkomulagið sem þá var leitt í lög væri jákvætt. Þá var meðal annars gerð gangskör að því að tryggja að útgerðir gætu staðið við greiðslur í tryggingasjóði annars vegar og til lífeyrissjóða sjómanna hins vegar. Það var talin ákveðin trygging fyrir sjómenn, t.d. að fá slysabætur, örorkubætur, líka yrðu greiddar bætur ef menn féllu frá. Hið sama mátti þá segja um lífeyrisgreiðslurnar, þá var tryggt að þær bærust þangað sem þær ættu að berast.

Þetta var bakgrunnurinn. Síðan hefur margt breyst. Eins og hér hefur komið fram var á sínum tíma kveðið á um það í áliti umboðsmanns að þetta mál gæti ekki staðið svona eins og það hefur gert um alllanga hríð og þá var það úrlausnarefni fyrir framkvæmdarvaldið á þeim tíma að hyggja að því með hvaða hætti þyrfti að bregðast við.

Ég ætla aðeins að fara yfir iðnaðarmálagjaldið af því að það hefur verið fært hérna í tal. Það má ekki gleyma því að iðnaðarmálagjaldið sem að hluta til er samkynja greiðslumiðluninni, en ekki algjörlega, var á sínum tíma kært. Það fór fyrir íslenska dómstóla. Niðurstaða Hæstaréttar, þó ekki lengra síðan en árið 2005, var sú að iðnaðarmálagjaldið stæðist, það var ekki talið brjóta í bága við stjórnarskrá. Af hverju skyldi það hafa verið? Í meginatriðum var ástæðan sú að í lögunum um iðnaðarmálagjald var sagt að iðnaðarmálagjaldinu skyldi ráðstafað til tiltekinna verkefna, sem þó voru skilgreind mjög almennt, til þess að gæta hags iðnaðarins eða eitthvað álíka held ég að hafi staðið í þeirri löggjöf.

Sá dómur var hins vegar ekki endanlegur í þeim skilningi að málinu var svo vísað til Mannréttindadómstóls Evrópu sem komst síðan að gagnstæðri niðurstöðu í apríl 2010 sem er til vitnis um að dómapraxísinn hefur verið að breytast. Formkröfurnar sem gerðar eru til gjaldtöku af þessu taginu eru einfaldlega orðnar miklu stífari en þær voru áður sem sést á því að íslenski Hæstirétturinn kemst að niðurstöðu um að iðnaðarmálagjaldið standist árið 2005. 2010 kemst Mannréttindadómstóll Evrópu að gagnstæðri niðurstöðu og auðvitað blasir við að málið er komið í aðra stöðu. Það er engin spurning að dómur Hæstaréttar varðandi greiðslumiðlunina árið 2010 hefur tekið mið af niðurstöðunni hjá Mannréttindadómstólnum. Það er sá veruleiki sem við stöndum frammi fyrir.

Þetta mál rak á fjörur mínar í tíð minni í sjávarútvegsráðuneytinu. Þá var það einfaldlega þannig að menn studdust við álit umboðsmanns Alþingis og eins og hæstv. ráðherra rakti var á sínum tíma farið yfir þessi mál undir forustu fulltrúa úr forsætisráðuneytinu og með aðkomu fulltrúa ýmissa ráðuneyta. Niðurstaðan varð meðal annars sú að það væri óhjákvæmilegt að gera breytingar á lögunum um greiðslumiðlun. Þá stóðu menn hins vegar frammi fyrir einum vanda sem ég tel að hefði verið óábyrgt að horfa fram hjá. Ef við hefðum einfaldlega á þeirri stundu afnumið þessi lög sem var kannski mjög einföld aðgerð af sjónarhóli þeirra sem settu þau, t.d. sjávarútvegsráðuneytisins, hefði það haft mjög miklar afleiðingar í för með sér fyrir hagsmunasamtökin. Þar er ég að vísa til hagsmunasamtaka sjómanna og Landssambands smábátaeigenda.

Ég vil taka fram að Landssamband íslenskra útvegsmanna hefur ævinlega verið þeirrar skoðunar, a.m.k. síðustu árin, svo mikið veit ég, að það væri eðlilegt að afnema þessi lög. Það gerði engar athugasemdir við það og mælti mjög með því að svo yrði gert.

Ég taldi á þeim tíma að ekki væri skynsamlegt að fara þá leið vegna þess að það mundi setja hagsmunasamtökin í uppnám. Sumir hafa þá skoðun að það sé bara allt í lagi. Ég er annarrar skoðunar. Ég tel að það sé gott fyrir samfélag okkar að við eigum öflug hagsmunasamtök, m.a. í samskiptum við stjórnvöld, sem geta komið fram fyrir hönd sinna stétta og sinna hagsmuna og rætt einum rómi við til dæmis stjórnvöld og líka innbyrðis.

Við urðum einhvern veginn að takast á við vandann sem þarna var til staðar. Auðvitað var ekki hægt að búa við löggjöf sem var að mati umboðsmanns á þeim tíma í ósamræmi við stjórnarskrána. Þess vegna varð þetta verkefnið.

Segja má að málið hafi orðið dálítið einfaldara með því að það varð niðurstaða gagnvart sjómannasamtökunum, sem þau undu, en eftir stóð þá Landssamband smábátaeigenda. Það frumvarp sem hér er lagt fram er greinilega til þess fallið að leysa úr þessum hnút eins og hann var þá orðinn, miklu einfaldari en hann var áður en engu að síður hnútur sem sneri að þessum sérstöku hagsmunasamtökum.

Sú leið sem er farin hér, og ég tel skynsamlega, er að falla frá því að greiðslumiðlunin sé notuð til að standa undir greiðslum vegna trygginga og vegna lífeyrisgreiðslna en þess í stað sé haldið áfram tímabundið, til ársbyrjunar 2016, þannig að menn hafi það valkvætt að greiða inn til Landssambands smábátaeigenda með þeim hætti sem frumvarpið kveður á um.

Ég tel þetta viðunandi niðurstöðu. Menn getur greint á um hvort eigi að veita þennan umþóttunartíma. Mér finnst vera rök með því og menn getur auðvitað greint líka á um það hvort yfir höfuð sé ástæða til að gera þessar breytingar. Ég geri til dæmis ráð fyrir að Landssamband smábátaeigenda haldi áfram þeirri skoðun sinni að það hefði verið hægt að búa við þessa löggjöf, í breyttri mynd að vísu, en niðurstaðan er engu að síður sú sem hér er fundin. Við fengum málið í breyttu formi á sínum tíma inn í sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd, hygg ég að það hafi verið á þeim tíma, og þar var málið talsvert unnið efnislega þó að ekki hafi verið hægt að ljúka því að öllu leyti.

Nú fer málið einfaldlega inn í atvinnuveganefnd. Við munum kalla eftir umsögnum og athugasemdum og ræða þessi mál en ég er sammála hæstv. ráðherra um að auðvitað verðum við að ljúka þessu máli. Ég tel allar forsendur til þess að það sé hægt.