141. löggjafarþing — 66. fundur,  16. jan. 2013.

skiptaverðmæti og greiðslumiðlun innan sjávarútvegsins.

417. mál
[16:42]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að hv. þingmaður misskilji þetta eitthvað. Ef hópur útgerðarmanna kýs að standa utan við Landssamband íslenskra útvegsmanna standa menn utan við Landssamband íslenskra útvegsmanna. Smábátasjómenn hafa stofnað fleiri samtök, t.d. Landssamtök línuútgerðarmanna ef ég man rétt og fleiri samtök hafa verið stofnuð með félögum sem áður voru í Landssambandi smábátaeigenda. Menn geta gert þetta. Við sjáum líka hvað hefur gerst hjá sjómannasamtökunum, þar hafa orðið til ný samtök. Þessir möguleikar eru til staðar.

Ég vil líka halda öðru til haga. Hv. þingmaður má ekki falla í þann gamla pytt að víkja með neikvæðum formerkjum að Landssambandi íslenskra útvegsmanna í þessu samhengi. Landssamband íslenskra útvegsmanna hefur verið á móti þessari löggjöf árum saman. Það kann að hafa verið öðruvísi fyrir einhverjum áratugum eins og ég nefndi áðan en það hefur gjörbreyst. Landssamband íslenskra útvegsmanna hefur talað gegn þessari löggjöf, viljað afnema hana, það vildi ekki hafa neina aðlögunarfresti, vildi einfaldlega með lögum hverfa frá þessu fyrirkomulagi. Landssamband íslenskra útvegsmanna hefur að minnsta kosti talað fyrir þessu.

Það sem ég rakti var að ef það hefði verið gert án nokkurs umþóttunartíma hefði það haft afleiðingar, ekki fyrir útgerðarmennina heldur sjómennina og Landssamband smábátaeigenda. Það var þá einhver veruleiki sem við stóðum frammi fyrir. Það leystist, má segja, án atbeina ríkisins varðandi sjómannasamtökin. Landssamband smábátaeigenda var í sérstakri stöðu. Ég tel að sú leið sem hérna er farin með því að búa til aðlögunarfrest í fyrsta lagi og í öðru lagi að gera þetta valkvætt fyrir þá sem ella störfuðu innan Landssambands smábátaeigenda, að vera þar starfandi eða segja sig úr því, komi til móts við þau sjónarmið sem lágu til grundvallar niðurstöðu Mannréttindadómstóls Evrópu og niðurstöðu Hæstaréttar.