141. löggjafarþing — 66. fundur,  16. jan. 2013.

skiptaverðmæti og greiðslumiðlun innan sjávarútvegsins.

417. mál
[16:44]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Við ræðum mjög ánægjulegt frumvarp um að afnema einn furðulegan kafla í kerfi sem hafði verið byggt upp hér á landi og skyldar fólk til að greiða í alls konar félög sem eru stofnuð hingað og þangað. Þessi II. kafli sem á að fella niður er með þvílíkum ólíkindum að þegar maður les er það ekki bara að eitthvert ríkisapparat eða ríkisdeild eigi að innheimta eins og með búnaðargjaldið eða áður iðnaðarmálagjaldið o.s.frv., heldur eru það viðskiptabankarnir sem eiga að taka að sér framkvæmd laganna. Þeir eiga að úrskurða og taka við greiðslu sem kemur til dæmis vegna veðsetningar sjávarafurða og af því á að taka hluta, 8%, og setja inn á einhverja reikninga. Bankanum var falin þessi innheimta með lögum. Það var ekkert stjórnvald né stjórnsýslulög sem giltu um það, ekki neitt. Þetta er alveg með ólíkindum.

Svo á að greiða 6% af hráefnisverði inn á vátryggingarreikning skipsins hjá Landssambandi íslenskra útvegsmanna. Tryggingagjaldið eða iðgjald fyrir tryggingu skipanna var sem sagt tekið með þessum hætti. Það var alls staðar verið að krukka í ráðstöfun útgerðarmanna á bankareikningum sínum.

Guði sé lof er þeim kafla lokið að fela viðskiptabönkum að taka hluta af innleggjum inn á ákveðna reikninga fyrir seldar vörur, flytja það inn á ýmsa reikninga og greiða síðan út. Til dæmis áttu 37,5% að fara til lífeyrissjóða sjómanna af greiðslumiðlunarreikningi smábáta. Af hverju 37,5% en ekki eitthvert annað hlutfall? Hver ákvað það? Síðan áttu 56,5% að fara til að greiða slysa- og örorkutryggingar skipverja. Það var sem sagt búið að taka burtu ákvörðun viðkomandi fyrirtækja eða einstaklinga og bankinn sá um að gera það með lagaboði.

Það er verið að leggja niður þennan óskapnað allan. Af því fé sem safnaðist á greiðslumiðlunarreikning fiskiskipa áttu 92% að fara til Lífeyrissjóðs sjómanna, 2,4% til Sjómannasambandsins og sjómanna innan Alþýðusambands Austfjarða og Alþýðusambands Vestfjarða, 1,6% til Farmanna- og fiskimannasambandsins og 4% til Landssambands íslenskra útvegsmanna. Það var búið til heilmikið kerfi innan viðskiptabankanna þar sem löggjafinn, Alþingi Íslendinga, ákvað að þegar aðilar borguðu fyrir ákveðna vöru inn á viðskiptareikning skyldi tekinn hluti af því og honum dreift á einhverja aðra viðskiptareikninga. Þetta er sem sagt verið að leggja niður og ég fagna því en auðvitað er það vegna þess að stjórnvöld eru að hrekjast úr einu víginu í annað.

Fyrir margt löngu, fyrir langalöngu, flutti ég mörg frumvörp um einmitt þessi mál. Ég flutti frumvarp um að afnema iðnaðarmálagjaldið og um að afnema búvörugjaldið. Ég hef í marggang, að ég held sjö sinnum, flutt frumvarp um að afnema skyldugreiðslu opinberra starfsmanna til stéttarfélaga. Opinberir starfsmenn skulu greiða iðgjald í viðkomandi opinbert stéttarfélag og í rauninni mega þeir ekki stofna ný stéttarfélög. Það hefðu nú þótt tíðindi í árdaga stéttarfélagsbaráttunnar. Það hefðu þótt tíðindi 1920 eða 1930 þegar menn fóru að berjast fyrir kjörum sínum að viðsemjandinn mætti ekki semja nema við ákveðið félag sem er hálfgert opinbert stéttarfélag.

Á því byggir allt veldi BSRB, Bandalags starfsmanna ríkis og bæja. Það eru skylda hvers einasta opinbers starfsmanns að greiða í viðkomandi stéttarfélag. Náttúrufræðingar skulu borga í stéttarfélag náttúrufræðinga og mega ekki borga í annað félag eða stofna nýtt. Hjúkrunarfræðingar skulu borga í stéttarfélag hjúkrunarfræðinga og mega ekki stofna nýtt félag og berjast fyrir kjörum sínum. Nei, ríkið skal semja við stéttarfélag hjúkrunarfræðinga um þeirra kjör. Það er kannski skýringin á því hversu léleg kjörin eru og hve illa gengur að ná fram einhverjum bótum á kjörunum.

Þetta gerir það líka að verkum viðkomandi stéttarfélög verða værukær og sofna á verðinum. Þau breytast, þau stofnanagerast vegna þess að þau fá tekjurnar á færibandi, 1% af launum og stundum meira en það. Það merkilega er að félagsgjaldið er ákveðið á félagsfundi viðkomandi félags, t.d. Félagi náttúrufræðinga, og launaskrifstofan skal svo innheimta það daginn eftir. Það gæti verið ákveðið að hafa 100% félagsgjald af launum og sagt að það sé mikil þörf á að fara í harða verkfallsbaráttu og því eigi að taka 100% af launum til að standa undir henni. Það eru engin efri mörk á þessu gjaldi. Það er ákveðið á félagsfundi og skatturinn líka.

Þetta brýtur því gegn stjórnarskránni á marga mismunandi vegu og ég skora á hæstv. ráðherra að fara nú að kíkja á búnaðargjaldið og afnema það og láta ekki alltaf hrekja sig með dómum Hæstaréttar eða Mannréttindadómstóls Evrópu úr einu horninu og einu víginu í annað. Ég skora á BSRB að vinna harðar að því að þau séu raunveruleg stéttarfélög sem félagsmennirnir vilja vera í og greiða félagsgjald til en eru ekki neyddir til þess með lögum.