141. löggjafarþing — 66. fundur,  16. jan. 2013.

ökutækjatryggingar.

439. mál
[16:51]
Horfa

atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Ég mæli hér fyrir frumvarpi til laga um ökutækjatryggingar. Það er á þskj. 548, mál nr. 439.

Með þessu frumvarpi er lagt til að sett verði sérlög um ökutækjatryggingar og bótaábyrgð vegna tjóns af völdum vélknúinna ökutækja. Ákvæði um þau atriði er nú að finna í XIII. kafla gildandi umferðarlaga og reglugerð um lögmæltar ökutækjatryggingar. Innanríkisráðherra hefur, eins og hv. þingmönnum er eflaust kunnugt, lagt fram frumvarp til nýrra umferðarlaga sem finna má á þskj. 180, mál nr. 179, en þar er ekki gert ráð fyrir ákvæðum um ökutækjatryggingar heldur að þær komi í sérlögum eins og þeim sem hér er mælt fyrir frumvarpi um.

Frumvarp af þessu tagi var lagt fram bæði á 139. og 140. löggjafarþingi en hlaut þá ekki afgreiðslu og er nú lagt fram í hið þriðja sinn og væntanlega systurfrumvarp þess til nýrra umferðarlaga sem ekki hafði þá sömuleiðis að geyma þennan kafla um ökutækjatryggingar. Með tilliti til athugasemda sem hins vegar komu fram við þinglega meðferð málsins á 140. löggjafarþingi hafa verið gerðar nokkrar lagfæringar á frumvarpinu sem raktar eru í almennum athugasemdum. Mjög margar greinar þessa frumvarps eru samhljóða núgildandi XIII. kafla umferðarlaga þannig að hér er ekki um mikil tímamót að ræða í þeim efnum heldur fyrst og fremst uppfærslu gildandi laga og umbúnað um þau í nýju frumvarpi til nýrra sjálfstæðra laga.

Helstu breytingarnar sem frumvarpið felur þó í sér eru í fyrsta lagi að eftirleiðis gildi sérlög um lögmæltar ökutækjatryggingar og bótaábyrgð vegna tjóns af völdum vélknúinna ökutækja í stað margnefnds XIII. kafla gildandi umferðarlaga.

Í öðru lagi er lagt til að í lögunum verði reglur um nokkur atriði sem nú er eingöngu að finna í reglugerð en réttara þykir að séu í lögum, svo sem reglur um lok vátryggingar og tjón af völdum óvátryggðra og óþekktra ökutækja. Þar er í sjálfu sér ekki um að ræða efnislegar breytingar frá gildandi rétti miðað við það hvernig staðið hefur verið að framkvæmd þessara mála.

Það eru lagðar til allmiklar breytingar á ákvæðum um vanskil og úrræði vátryggjenda. Þannig er að í umferð munu vera yfir fimm þúsund óvátryggð ökutæki en talan miðar við stöðuna í janúarmánuði fyrir ári síðan. Ásamt því að vera óvátryggð er stór hluti þessara ökutækja jafnframt óskoðaður enda gild vátrygging forsenda skoðunar. Í frumvarpinu er lagt til að heimilt sé að leggja á sérstakt vantryggingagjald vegna óvátryggðra ökutækja auk þess að bann sé lagt við notkun þeirra. Heimilt sé í reglugerð að ákveða fjárhæð gjaldsins eftir gerð og búnaði ökutækis. Gjaldið má að hámarki nema 25 þús. kr. á mánuði og getur uppsöfnuð heildarfjárhæð að hámarki numið 250 þús. kr. Lagt er til að ráðherra verði veitt heimild til að fela öðru stjórnvaldi álagningu og innheimtu vantryggingagjalds.

Þannig er að með samþykki innanríkisráðuneytisins hefur verið tekið til skoðunar að fela sýslumanninum í Bolungarvík verkefnið en það sýslumannsembætti sinnir nú þegar innheimtu og álagningu vanrækslugjalds vegna óskoðaðra ökutækja og felst augljóslega mikið hagræði í að álagning og innheimta þessara tveggja nátengdu gjalda séu á einni hendi. Eðli máls samkvæmt er lagt til að vantryggingagjaldið renni í ríkissjóð að frádregnum kostnaði við innheimtu þess.

Þá er lagt til að horfið verði frá því fyrirkomulagi að umráðamanni sé bætt við innan sviga á eftir eiganda er fjallað er um ábyrgð á ökutæki og fébótaskyldu vegna tjóns sem það veldur. Ljóst þarf að vera hver ber ábyrgðina hverju sinni og æskilegt er að eigandi beri ábyrgð á ökutæki. Þó er lagt til að heimilt verði að semja um að umráðamaður ökutækis vátryggi það í sínu nafni og skal hann þá hafa val um hjá hvaða vátryggingafélagi hann vátryggir. Í slíkum tilfellum ber eigandi þó áfram ábyrgð á því að ökutækið sé með lögboðnar tryggingar samkvæmt frumvarpinu. Hafi verið samið um að umráðamaður ökutækis vátryggi það í sínu nafni og vátrygging ökutækis er úr gildi fallin sökum þess að umráðamaður hefur vanefnt ákvæði samnings þess efnis á eigandi ökutækis endurkröfurétt á umráðamann sem nemur þeim kostnaði sem eigandi varð sannarlega fyrir sökum vanefndanna, þar með talið á kostnaði vegna vantryggingagjalds.

Gerð er tillaga um að ákvæði um fjögurra ára fyrningarfrest eigi ekki við um kröfur um bætur vegna líkamstjóns en slíkar kröfur fyrnist á tíu árum frá tjónsatburði.

Virðulegi forseti. Þetta eru meginefni þessa tilölulega einfalda frumvarps og ég legg til að að lokinni 2. umr. verði því vísað til hv. efnahags- og viðskiptanefndar.