141. löggjafarþing — 66. fundur,  16. jan. 2013.

ökutækjatryggingar.

439. mál
[16:57]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég ætlaði að spyrja hæstv. ráðherra um eitt atriði sem hann vék nokkrum orðum að í framsöguræðu sinni og varðar atriði sem kom upp í fyrri umfjöllun um málið og er einmitt um ábyrgð eigenda og umráðamanna. Ég held að vandamálið snúist kannski fyrst og fremst um bifreiðar sem hafa verið í eigu kaupleigufyrirtækja, fjármálafyrirtækja og slíkra fyrirtækja en í umráðum einstaklinga samkvæmt sérstökum samningi þar um, kaupleigusamningi, rekstrarleigusamningi eða einhverju því um líku.

Nú heyrðist mér á framsöguræðu hæstv. ráðherra að með ákveðnum hætti væri komið til móts við þessa stöðu sem er auðvitað uppi í gríðarlega miklum fjölda tilvika. Ég vildi spyrja hæstv. ráðherra hvort hann teldi að með því sem hér er lagt til sé komið til móts við þær athugasemdir sem fram komu þegar málið var áður til umfjöllunar um að óeðlilegt væri að hinn lögformlegi eigandi bifreiðar sem kaupleigusamningur eða rekstrarleigusamningur eða eitthvað slíkt gilti um bæri hlutlæga ábyrgð á tjóni vegna þess, eða hvort að með því fyrirkomulagi sem mér heyrðist á hæstv. ráðherra að þarna væri hugsað, að hægt væri að semja um að umráðamaður bæri þessa ábyrgð á tryggingunum, væri komið til móts við þær athugasemdir sem hafa komið upp út af tilvikum af þessu tagi á fullnægjandi hátt.