141. löggjafarþing — 66. fundur,  16. jan. 2013.

ökutækjatryggingar.

439. mál
[17:06]
Horfa

atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Almenna reglan er sú að þannig fer nú með bíla en aðstæður geta verið á þann veg að menn taka af einhverjum ástæðum númer af bílum, leggja þau inn — þá eru þau reyndar tekin af skrá svona í gamalli merkingu þess orðs, þegar menn notuðu það — og tryggja þær bifreiðar eðli málsins samkvæmt ekki. Þá er þeim algjörlega óheimilt að vera í umferð, það má ekki hreyfa þær, það má ekki aka þeim. En þú getur geymt bifreið þannig, hún er ekki send í endurvinnslu.

Við getum tekið bíl sem einhver hefur áhuga á að gera upp síðar meir sem fornbíl eða annað í þeim dúr. Það má heldur ekki alhæfa í þessum tilvikum, fullkomlega eðlilegar ástæður geta verið fyrir því að menn geyma bíla án númera og án þess að tryggja þá í einhver ár, t.d. vegna þess að þeir kunna að vera áhugamenn um fornbíla eins og sumir hér í salnum eru.