141. löggjafarþing — 66. fundur,  16. jan. 2013.

stjórn fiskveiða.

447. mál
[17:19]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir yfirferðina á málinu sem má eiginlega segja að sé viðbrögð við þeirri glufu sem í lögunum er þar sem kveðið er á um að bátar sem eru nú þegar 15 brúttólestir og komnir með krókaaflamark geti stækkað eftir að krókaaflamarkið er komið á þá. Í raun og veru er komið nýtt kerfi sem segir að sá eini bátur sem um ræðir geti einungis fært til sín úr stóra kerfinu en frá sér í litla kerfið þannig að það er eiginlega búið að búa til nýtt kerfi.

Það er tvennt sem mig langar að spyrja hæstv. ráðherra um, þó aðallega hvort hæstv. ráðherra telji ekki eðlilegra og hvort það komi til greina af hans hálfu að breyta þessu bara úr 15 brúttótonnum í 15 metra. Nú er búin að vera ákveðin krafa um það í töluverðan tíma og hún er alltaf að þyngjast og það kemur vel fram í greinargerðinni að sú krafa hefur verið uppi vegna þess búnaðar sem hefur verið settur um borð í báta og líka út af öryggissjónarmiðum, meðferð á afla o.s.frv.

Mig langar líka að spyrja hæstv. ráðherra um það sem kemur fram í 3. gr., um báta sem eru 15 brúttótonn eða stærri 1. nóvember 2012. Við vitum að margir hafa látið stækka bátana eftir að frumvarpið var lagt fram og þeir halda því fram, margir hverjir, að það stangist á við jafnræðisregluna að láta þetta gilda afturvirkt, þ.e. þar til lögin taki gildi geti þeir sem eiga báta sem þegar eru stærri en 15 brúttótonn hugsanlega farið þá leið sem hér er boðuð. Hefur hæstv. ráðherra ekki áhyggjur af því að það geti haft þær afleiðingar (Forseti hringir.) að menn fari jafnvel í mál við ríkið ef einn fer í gegn en aðrir verða látnir sitja eftir?