141. löggjafarþing — 66. fundur,  16. jan. 2013.

stjórn fiskveiða.

447. mál
[17:26]
Horfa

atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég heyri sjónarmið hv. þingmanns. Hann er vel að sér um þessi mál og líklegur til þess að máta mig ef við færum í miklar umræður um nákvæmlega þetta. Ég vil þó halda því til haga að við þurfum að finna eitthvert jafnvægi á milli þess að kröfur eru uppi um eðlilega þróun í þessu útgerðarformi eins og öðrum og það geta að sjálfsögðu verið málefnaleg sjónarmið sem koma til sögunnar varðandi búnaðinn um borð, vinnuaðstöðuna um borð og báta sem eru komnir með veiðiheimildir sem hvaða vertíðarbátur sem var hér, þó að hann hefði verið 50 eða 100 tonn að stærð, fyrir 20–30 árum hefði þótt fullsæmdur af að vera í þessari stærð.

Hins vegar er spurningin um að menn sætti sig bara við þær takmarkanir sem ákveðið hefur verið að hafa í þessu kerfi og sæmileg sátt hefur verið um. Ég vil alla vega stíga varlega til jarðar áður en ég gef mikið upp um það hvort ég telji skynsamlegt að svo stöddu að falla frá þessari takmörkun því að þrátt fyrir allt sé ég að það er hún sem menn eru almennt að tala um og álykta um að halda sig við 15 brúttótonna afmörkunina.