141. löggjafarþing — 66. fundur,  16. jan. 2013.

stjórn fiskveiða.

447. mál
[17:27]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S):

Virðulegi forseti. Ég ætla að halda aðeins áfram með mál sem ég ræddi við hæstv. ráðherra áðan og snýr að stærðarmörkum á bátum, hvort þeir sem eru með krókaaflamarksheimildir séu 15 brúttótonn eða 15 metrar. Skoðun mín í málinu kom reyndar skýrt fram, ég tel mun skynsamlegra að færa stærðarmörkin upp í 15 metra. Fyrir því eru margvísleg rök, kannski fyrst og fremst öryggissjónarmið. Við skulum líka rifja það upp að á þeim tíma sem lögunum var breytt um 2002, þ.e. markið hækkað upp í 15 brúttótonn, var ekki byrjað að setja þann búnað í báta sem eru í bátum í dag eins og t.d. beitningarvélar og annað. Öryggissjónarmið skipa hér því stóran sess. Það er auðvitað líka miklu betri aðstaða til að fara betur með aflann sem skapar aukin verðmæti og meiri tekjur fyrir þjóðarbúið í heild sinni, sem er ekki síður mikilvægt. Það er einn liður í því að taka á því vandamáli sem við ræddum áðan og snýr að því að menn hafi þá meiri möguleika til að fara út á djúpslóðina í dag en að vera með þessa báta í dag til að forðast ýsuveiðina.

Ég tel að það væri mun skynsamlegra að breyta viðmiðuninni í 15 metra enda er sá bátur sem hér um ræðir, sem má eiginlega segja að frumvarpið fjalli um, innan við 15 metra. Það er þó ekki að kröfu þess eiganda að lögin komi fram heldur er það gert til að bregðast við þeirri glufu sem er í lögunum í dag. Menn hafa því farið þá leið að stækka bátana eftir að aflaheimildirnar eru komnar, eins og í þessu tilfelli.

Ég benti einnig á það andsvari að það eru sérstakar norrænar reglur um smíði bátanna sem segja til um að sé bátur 15 metrar eða lengri má maður ekki samkvæmt reglugerðinni hafa neinar undanþágur á því hvað mælist til mestu lengdar. Ef bátur er undir 15 metrum teljast jafnvel 1,5–2 metrar ekki með og stundum meira. Menn tala um að mesta lengd á bátunum sé bara 15 metrar. Þá er ekkert svigrúm. Það er auðvitað rétt sem hæstv. ráðherra sagði, orðið hefur töluverð framþróun í smíði þessara báta. Við sjáum það á þeim 15 metra bátum sem hannaðir hafa verið og smíðaðir hér í tveimur skipasmíðastöðvum og farið til Noregs. Síðan hafa menn sett sams konar báta inn í þetta 15 brúttótonna viðmið sem við erum með en ekki 15 metra. Þeir bátar eru 15 metrar og engir kassar eða neitt á þeim. Þá er í raun og veru farið að saga innan úr þessum bátum eftir því hvernig þeir eru smíðaðir. Það er í fyrsta lagi dýrari smíði að minnka bátinn plús það að báturinn er ekki að öllu leyti sambærilegur hinu hvort sem litið er til öryggis eða annars. Mín skoðun er klárlega sú að það eigi að færa viðmiðið í 15 metra. Það er margt sem mælir með því eins og ég hef farið yfir.

Ég tel rétt að hæstv. ráðherra fari varlega þegar hann svarar því og ég kref hann ekki frekar um svör. Það er auðvitað mjög skynsamlegt vegna þess að mjög margir bátar hafa verið stækkaðir eftir að frumvarpið kom fram, þ.e. bátarnir eru komnir upp fyrir 15 brúttótonn og menn þykjast hafa fyrir því lögfræðiálit. Ég er ekki löglærður maður þannig að ég veit svo sem ekkert um það, en menn segja að það brjóti jafnræðisregluna að lögin séu afturvirk, þ.e. þeir sem þegar séu búnir að stækka geti í raun og veru farið þá leið. Ég held ekki að neinn vilji færa miklar aflaheimildir úr krókaaflamarkskerfinu yfir í aflamarkskerfið.

En af hverju var það þannig að margir gátu í stækkað bátana mjög fljótt með lítilli fyrirhöfn? Það var vegna undanþágu sem er í reglugerðinni við smíði báta undir 15 metrum. Maður þurfti að hafa mjög lítið fyrir því að láta mæla flotkassana sem voru fyrir aftan bátana til að stækka þá upp fyrir 15 brúttótonn þannig að þá girðir maður fyrir það í leiðinni. Það er auðvitað kannski enn ein staðfestingin á því hversu mikilvægt það er.

Þó að ég ætli ekki að fullyrða neitt um það er ég sammála hæstv. ráðherra að það er auðvitað hægt að smíða bát sem er 15 metra langur og kannski endar það þannig að hann verði 14 metra breiður. Það eru engin takmörk fyrir því hvað menn geta gert, þó að ég mundi reyndar ekki vilja róa þeim bát. En þá getum við auðvitað sett inn skilyrði samhliða stærðarmælingunni, inn í 15 metra skilyrðið fyrir lengdinni á bátnum, þannig að maður geti í raun og veru ekki breikkað bátinn endalaust. Það er hægt að gera það. Það er bjargföst skoðun mín að það eigi að gera það þannig til að eyða þeirri óvissu sem þarna er. Það gætum við klárlega verði frumvarpið að óbreytt að lögum. Síðan færu margir í mál og segðu: Við erum búnir að stækka bátana og við viljum fara sömu leið. Þá er það ekki gert með þeim hætti og það er ekki markmiðið. Markmiðið er að bregðast við þeirri stöðu sem upp er komin vegna þeirra annmarka sem voru í lögunum á sínum tíma. Það mælir líka með því að gera það þannig.

Síðan snýr málið líka að strandveiðunum, eins og hæstv. ráðherra fór yfir. Nú á að breyta strandveiðunum, þ.e. ekki á að miða við ákveðna tonnatölu heldur færa aflamarkið yfir í aflahlutdeild þannig að ákveðin prósenta veitt miðað við útgefið aflamagn, annars vegar í ufsa og hins vegar í þorski. Það er þá 3,6% af hvoru tveggja.

Ég ætla svo sem ekki að halda langa ræðu um það í sjálfu sér en ég staldra hins vegar aðeins við það sem fram kemur í 2. gr. sem snýr að því að menn geti fengið fjölda sóknardaga úthlutað miðað við árið á undan, þ.e. þrjá fjórðu hluta af þeim sóknardögum sem voru á viðkomandi svæði á árinu á undan. Ég staldra aðeins við það ákvæði og ekki að ástæðulausu. Misskipting á milli svæða er eitt af því sem gagnrýnt hefur verið varðandi strandveiðikerfið að þegar það var sett á. Þar kemur klárlega fram aðstöðumunur þó svo að lagt hafi verið upp með að jafna aðganginn að veiðunum. Ef maður skoðar muninn á milli svæða síðastliðin ár, af því að svæðin eru fjögur og síðan er úthlutað inn á þau á fjögurra mánaða tímabil, þá er það með þeim hætti að t.d. á svæði A er aflahæsti báturinn með 17,7 tonn og kemst í 21 róður. Á svæði B er aflahæsti báturinn með 29 tonn og kemst í 38 róðra og á svæði C er hæsti báturinn með 35 tonn og kemst í 40 róðra. Síðan á svæði D er hæsti báturinn með 32 tonn og kemst í 38 róðra. Það hefur verið gagnrýnt við kerfið að menn skipti ekki eftir fjölda bátanna heldur með þessum hætti, þ.e. á sumum svæðum, til að mynda á A-svæði, þurfa menn kannski að róa þrjá til fjóra daga. Þá er auðvitað sú hætta uppi sem hæstv. ráðherra kom inn á sérstaklega í framsögu sinni og er grunnurinn að því að menn fari að róa stífar. Ég er sammála hæstv. ráðherra um það en hver og einn verður að bera ábyrgð á því. En það er því miður hvati til að fara út í tvísýnu veðri og taka meiri áhættu. Það er bara reynslan úr sóknarmarkskerfunum hvað sem fólki kann að finnast um það, það er bara þannig. Maður setur spurningarmerki við það þegar þetta er gert og ég hef gagnrýnt þessa misskiptingu milli svæða reyndar alveg frá upphafi. Mér finnst hún ekki réttlát. Í hluta í 2. gr. er talað um úthlutun á dögum á bátana, þ.e. þrjá fjórðu hluta á því svæði miðað við dagafjöldann á árinu á undan til að auka öryggi við strandveiðar, eins og segir orðrétt í greininni.

Ég held að hv. atvinnuveganefnd þurfi bara að skoða það. Þar kemur fram að áætlað sé að gera það í maí og júní. Ég staldraði við og hugsaði með mér hvort ekki væri skynsamlegra að gera það í maí og ágúst frekar en í júní, en það er matskennt hjá hverjum og einum og þá er auðvitað farið að dimma aftur og veður vályndari en í júní. Það er kannski ekki aðalmálið hvort það er í maí eða júní eða maí eða ágúst en mér finnst skynsamlegra að gera það í maí eða ágúst.

Ég vil spyrja hæstv. ráðherra um eitt vegna þess að fyrir liggja breytingar á strandveiðifrumvarpinu þar sem flutningsmenn eru þrír hv. þingmenn Samfylkingarinnar. Tillaga þeirra er þveröfug við það sem gera á hér gagnvart svæðaskiptingunni. Þar er lagt til að gengið verði gengið til baka og tekið undir þá gagnrýni sem ég hef m.a. haft uppi gagnvart þessu. Fram kemur í greinargerð með frumvarpinu að markmið þessa sé einmitt að draga úr þeirri áhættu og misskiptingu sem núverandi fyrirkomulag hefur leitt af sér að þessu leyti og gagnrýnt hvernig staðið er að því að úthluta inn á svæðin á mismunandi hátt, þ.e. að ekki sé tekið tillit til fjölda báta á viðkomandi svæðum. Mig langar að fá viðbrögð hæstv. ráðherra þar sem þrír stjórnarþingmenn flytja frumvarp sem gengur þvert á það sem er áætlað að gera í þessu frumvarpi. Þeir munu tæplega styðja frumvarpið nema svæðaskiptingunni verði breytt. Það gefur auðvitað augaleið að það þarf að fara betur yfir það.

Ég tek undir með hæstv. ráðherra um það og ég treysti mér ekki til að kveða upp úr um það sem snýr að afturvirkni laganna og kannski enginn fyrr en málið er búið að fara fyrir dómstóla, þá mundi það misfarast sem verið er að gera hér. Ég held að ekki séu pólitískar deilur um það í þinginu að færa stóra hluta af aflamarkinu úr krókaaflamarkinu yfir í aflamarkskerfið. En það gæti hins vegar gerst ef það færi á þann veg að frumvarpið yrði samþykkt eins og það er. Síðan færu menn í mál og fengju síðan að fara sömu leið. Þá gætum við auðvitað lent í vandræðum því að þetta eru töluvert margir bátar. Það er búið að vera töluverð gerjun í umræðunni.

Það er rétt sem hæstv. ráðherra sagði hér áðan að Landssamband smábátaeigenda hefur ekki verið hlynnt því að breyta stærðarmörkum úr 15 brúttótonnum í 15 metra en hins vegar er sífellt háværari krafa um það innan þeirra samtaka, sífellt fleiri vilja fara þá leið þannig að viðhorf þeirra gæti hugsanlega breyst eitthvað gagnvart þessum málum. Eins og ég fór yfir áðan er það auðvitað skynsamlegra að því leyti sem snýr að öryggisatriðum, meðferð á afla o.s.frv. Ég tel að það væri mun skynsamlegri leið en skil eftir þessar spurningar til hæstv. ráðherra. Það væri gott ef hann gæti svarað þeim í lokaræðu sinni, annars vegar varðandi dagana þar sem það gengur þvert á það frumvarp sem þrír hv. stjórnarliðar hafa lagt fram, og hins vegar varðandi það sem hv. atvinnuveganefnd mun væntanlega fara yfir og fá viðbrögð við. Það snýr að því að skoða hvort æskilegra sé að sækja í júní eða ágúst. Það er svo sem ekki hægt að gera nákvæma grein fyrir því en það er æskilegt að hv. nefnd fari vel yfir það í yfirferð sinni yfir málið.

Ég minni líka á að þó að bátarnir stækki um 15 brúttótonn og 15 metra eru auðvitað takmörk fyrir því hvað maður má hafa miklar heimildir á skipi. Ég hef ekki miklar áhyggjur af því að það muni hafa einhver áhrif á það sem er að gerast í krókaaflamarkskerfinu. Sá þröskuldur er nú þegar töluvert lægri í krókaaflamarkskerfinu en í aflamarkskerfinu þannig að ég tel farsælast að leysa málin með því að fara með það í 15 metra.