141. löggjafarþing — 66. fundur,  16. jan. 2013.

stjórn fiskveiða.

447. mál
[17:53]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Einhver mikilvægasta breyting sem gerð hefur verið á fiskveiðistjórnarkerfinu var þegar krókaaflamarkskerfinu var komið á á sínum tíma. Áður höfðum við haft svokallað þorskaflahámark þar sem bátar 6 tonn og minni höfðu ákveðið hámark í þorski en máttu síðan fiska aðrar tegundir frjálsar. Það kerfi var lagt niður, það var mjög umdeilt á sínum tíma. Þegar það var lagt niður var líka ákveðið að stækka stærðarviðmiðunina úr 6 tonnum upp í 15 tonn og síðan að færa verulegar aflaheimildir, í ýsu og steinbít og þorski, inn í kerfið til að búa til nýjan rekstrargrundvöll fyrir þessa báta. Þetta var mjög umdeilt, þetta var gríðarlega mikil tilfærsla frá aflamarkskerfinu yfir í krókaaflamarkskerfið, og að baki því lá sú hugsun að reyna að búa til möguleika fyrir minni byggðirnar sem höfðu misst frá sér aflaheimildir. Ég er þeirrar skoðunar að þetta kerfi hafi í aðalatriðum reynst mjög vel og hafi þjónað tilgangi sínum.

Ég er að rifja þetta upp í mjög stuttu máli til að setja hlutina eins og þeir eru í dag í tiltekið samhengi. Hver er staðan í dag? Hún er sú sem kemur fram meðal annars í frumvarpinu að einn bátur hefur farið í gegnum það og fengið til þess öll tilskilin leyfi að hann er nú stærri en 15 tonn. Það hefur fengist heimild til að stækka bátinn. Hann er í krókaaflamarki. Það eru hins vegar ákveðnar skorður á þessu en gert er ráð fyrir því, ef frumvarpið verður að lögum, muni þessum aðila bjóðast að flytjast úr krókaaflamarkskerfinu í aflamarkskerfið.

Það sem síðan hefur gerst er það að fjölmargir bátar með miklar aflaheimildir í krókaaflamarkskerfinu hafa farið í gegnum þennan fasa og eru núna ekki lengur 15 tonn eða minni heldur mun stærri. Þá hlýtur sú staða að koma upp að þessir bátar hljóta að gera þá sömu kröfu og orðið hefur verið við gagnvart þeim eina tiltekna bát sem hér um ræðir og hafi þá nákvæmlega sömu heimildir, forsendur og leyfi, ella væri verið að mismuna mönnum innan þess lagaramma sem er gildandi í dag.

Ef þeim bátum sem ég var að vísa til býðst að flytjast úr krókaaflamarkskerfinu í aflamarkskerfið — sem ég held að sé mjög erfitt að synja þeim um í ljósi þess sem þegar hefur verið gert — gæti krókaaflamarkskerfið sjálft veikst mjög mikið. Það væri að mínu mati mjög mikið ógæfuskref.

Ég held þess vegna að það sé algerlega óhjákvæmilegt fyrir okkur að horfast í augu við þennan raunveruleika. Lögin voru þannig, sem menn höfðu kannski ekki séð, að það var þessi glufa. Hún var opin, menn nýttu sér hana og staðan er þá þessi: Hættan sem að mínu mati blasir við okkur, ef menn reyna ekki að bregðast við þessu á einhvern hátt, er sú að krókaaflamarkskerfið verði hér eftir miklu veikara en áður og þá hafi það ekki lengur þennan byggðarlega tilgang sem það hafði á sínum tíma og hefur vissulega þjónað mjög vel eins og við sjáum víða í kringum landið. Ég er því þeirrar skoðunar að eðlilegast væri, eins og rætt hefur verið af hálfu hv. þingmanna Ásbjörns Óttarssonar og Gunnars Braga Sveinssonar, að eðlilegt væri að stíga þetta skref núna, þróa þetta alveg eins og við gerðum á sínum tíma þegar krókaaflamarkið var sett á, við færðum stærðarmörkin úr 6 tonnum upp í 15 tonn. Mörgum fannst það dálítið vel í lagt á þeim tíma en það hefur ekki veitt af. Þess vegna held ég að það væri skynsamlegt núna að þróa málið áfram og leyfa þessa stækkun upp í 15 metra auðvitað með öðrum skorðum eins og hv. þm. Ásbjörn Óttarsson nefndi áðan.

Fyrir þessu eru mörg rök, ég ætla að nefna nokkur. Í fyrsta lagi er ljóst mál að krókaaflamarksbátarnir gegna nú miklu meira hlutverki en þeir gerðu áður. Þetta eru hráefnisöflunartæki fyrir stórar fiskvinnslur vítt og breitt um landið og gegna þess vegna miklu byggðarlegu hlutverki í sjálfu sér. Í öðru lagi er það málið sem við ræddum hér fyrr í dag sem eru ýsuvandræðin: Við vitum að þeir bátar sem eru í krókaaflamarkskerfinu geta ekki forðast ýsuna eins og ýsugengdin er nú á grunnslóðinni. Þess vegna er mikil freisting að reyna að róa dýpra sem er auðvitað háskalegt við þær aðstæður sem við búum við á Íslandsmiðum, að þessir bátar fari út á ystu mið við aðstæður sem þeir eiga kannski mjög erfitt með að ráða við. Í þriðja lagi, sem er þá nátengt þessu, er það einfaldlega öryggissjónarmiðið. Þessir bátar verða þá öruggari. Í fjórða lagi vil ég nefna að aðbúnaður mannskapsins mun batna við þetta eins og við sjáum að gerst hefur í þessum bátum. Þeir hafa batnað mjög mikið hvað varðar aðbúnað mannskapsins og möguleikarnir á að bæta það enn, með því að leyfa stækkun upp í 15 metra, yrði þá til staðar.

Loks er atriði sem ég verð að nefna hér, sem skiptir gríðarlega miklu máli, en það eru vaxandi kröfur frá fiskkaupendum um bætta meðferð afla. Þar gegnir lykilhlutverki kæling á aflanum um leið og hann er veiddur eftir bókun. Aðstæðurnar til að sinna þessu á bátunum eins og þeir eru í dag eru ekki eins og best væri á kosið. Möguleikarnir sem við höfum, tæknimöguleikarnir í þeim efnum, krefjast meira rýmis um borð í bátunum en verið hefur og þess vegna er mikil krafa eða pressa á þessar útgerðir að þeir reyna að útbúa sig betur en það er hins vegar stærðin sem veldur því að það er mjög erfitt.

Þó að það geti verið erfitt skref, og þetta er sannarlega umdeilt, að stækka bátana úr 15 tonnum upp í 15 metra, með þeim skorðum sem hv. þm. Ásbjörn Óttarsson nefndi, tel ég það óhjákvæmilegt við þessar aðstæður. Menn verða bara að horfast í augu við það. Ella er þessi hætta til staðar að krókaaflamarkið veikist og það væri mjög slæmt ef það væri þannig fyrir utan þau rök sem ég hef þegar farið yfir.

Ég vildi aðeins við 1. umr. koma sjónarmiðum mínum á framfæri. Ég hef velt þessum málum mjög mikið fyrir mér og ég var lengi vel nokkuð tvístígandi í þessum efnum en fyrir mér blasir málið við svona eins og ég hef verið að rekja það. Þetta er þá viðfangsefni sem við þurfum að takast á við í atvinnuveganefnd. Það er alveg ljóst mál að það er vaxandi krafa, og hún hefur birst okkur nú síðustu vikurnar, frá smábátasjómönnum að fara í þessa stækkun. Ég fullyrði að aðstæðurnar hafa breyst heilmikið frá því að menn voru að funda og ræða þessi mál í aðildarfélögum LS og í stjórn LS og aðalfundi LS á síðasta ári. Þetta þurfum við þess vegna að fara ofan í.

Það væri í sjálfu sér einnig áhugavert að fara yfir 2. gr. en það ætla ég hins vegar ekki að gera hér og nú. Ég vil aðeins víkja að 3. gr., sem er bráðabirgðaákvæði, sem er einmitt ætlað að taka á þeim málum sem snúa að stækkuninni. Þar er gert ráð fyrir að heimilt verði fram til 1. ágúst á þessu ári að heimila þeim bátum sem hafa veiðileyfi með krókaaflamarki, og eru 15 tonn eða stærri 1. nóvember 2012, að umskrá krókaaflamarkshlut í aflahlutdeild frá og með fiskveiðiárinu 2013/2014. Það er einmitt þetta ákvæði sem menn horfa til og segja: Samkvæmt jafnræðisákvæði stjórnarskrárinnar og spurningu um afturvirkni er mjög óeðlilegt að ákvæðið sé svona, það sé bara miðað við þá sem voru búnir að gera þetta 1. nóvember sl. Það mun gera að verkum að mikil pressa verður á að fleiri geti komist í kjölfarið. Það gætu fylgt málaferli, einhver óvissa, og ég óttast mjög að ef menn bjóða upp í þann dans án þess að taka á málinu þá getum við staðið frammi fyrir því að krókaaflamarkið veikist, verði hvorki fugl né fiskur og gegni ekki því hlutverki sem því var ætlað að gegna. Þess vegna skiptir svo miklu máli að við reynum að ljúka þessu máli með þeim hætti sem við höfum verið að tala fyrir í dag.