141. löggjafarþing — 66. fundur,  16. jan. 2013.

landslénið .is.

421. mál
[18:40]
Horfa

innanríkisráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vek athygli á því að í öðrum ríkjum þar sem landslénin eru annaðhvort sjálfseignarstofnanir eða í eigu ríkisins rennur allt gjaldið sem ég og þú og við öll borgum mánaðarlega til starfseminnar sjálfrar eða til ríkisins — allt. Í okkar tilviki rennur það líka í arð til eigenda fyrirtækisins. Það gerir það.

Ég segi fyrir mína parta, sem er viðskiptavinur þessa fyrirtækis, að ég vil að það sé háð einhverri eftirlitsskyldu vegna þess að þetta er ekki markaðsfyrirtæki í eiginlegum skilningi. Þetta er landslénið sem ég er í viðskiptum við vegna þess að ég vil kenna mig við Ísland með léninu .is. En í öðrum tilvikum sem sagt og ég ítreka það rennur allt gjaldið til starfseminnar í formi sjálfseignarstofnunar eða þar sem það er í ríkiseign til ríkisins — allt saman.

Hér erum við að tala um að örlítið brot renni til aðila sem sinnir eftirlitsskyldu fyrir mína hönd sem neytanda og ég skil ekki hvers vegna hv. þingmaður er andvígur því. (PHB: Ný stofnun.) Ný stofnun, gellur við í einum manni hér úti í sal. Það er ekki verið að tala um nýja stofnun, það er verið að tala um að fyrirtæki sem Sjálfstæðisflokkurinn einkavæddi í byrjun þessarar aldar, illu heilli, en sem betur fer hefur það verið vel rekið síðustu missirin og árin, ekki allan tímann. (Gripið fram í.) Á fyrstu árunum var um að ræða skuldsetta yfirtöku og gríðarlegan arð sem var tekinn út úr fyrirtækinu og við viljum ekki láta það henda aftur. Hér tala ég ekki bara fyrir hönd samfélagsins heldur fyrir hönd neytenda, manna á borð við mig sem er (Forseti hringir.) viðskiptaaðili við þetta fyrirtæki.