141. löggjafarþing — 66. fundur,  16. jan. 2013.

landslénið .is.

421. mál
[18:47]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S):

Virðulegi forseti. Ég ætla að segja í upphafi ræðu minnar að ég lít svo á að hæstv. ráðherra hafi mismælt sig þegar hann hélt því fram að ég væri hér eingöngu til þess að verja hagsmuni einhvers sérstaks fyrirtækis. Væri hægt að fá einn fund í salinn? Ég verð að líta svo á að hæstv. ráðherra hafi mismælt sig þegar hann sagði að ég standi hér í þessum stól til þess að verja hagsmuni sérstaks fyrirtækis en ekki hagsmuni neytenda. Ég trúi ekki öðru. Ég vil gera stuttlega grein fyrir því af hverju ég tala hér í þessu máli. Það er vegna þess að ég átti sæti í hv. samgöngunefnd á sínum tíma og þetta mál kom fyrst inn í þá fagnefnd. Eftir að við fengum frumvarpið í hv. nefnd þá vissum eða skildum við í raun og veru ekkert um hvernig þessi rekstur væri. Ég viðurkenni það fúslega.

Það varð til þess að nokkrir nefndarmenn í samgöngunefnd, þvert á pólitíska flokka, gerðu sérstaka ferð til þess að heimsækja fyrirtækið sem um ræðir, kynna sér starfsemina og átta sig á umfanginu. Það var ekkert annað. Reyndar forfölluðust tveir af fjórum sem ætluðu að fara, en ég og hv. þm. Guðmundur Steingrímsson fórum og áttum góðan fund með forsvarsmönnum fyrirtækisins. Það var bara til þess að kynna okkur málið sem við vorum með til meðferðar í hv. nefnd á þeim tíma. Við litum á það sem eftirlitshlutverk með að standa að lagasetningu og skyldu okkar sem hv. þingmenn. Það var eingöngu vegna þess. Því hef ég fylgst með þessu máli þótt ég sé hættur í hv. samgöngunefnd og eigi ekki sæti þar lengur eftir að hún var sameinuð. Ég er ekki að verja hagsmuni einhvers fyrirtækis á kostnað neytenda, það er algjörlega af og frá. Hver er svo niðurstaðan? Hver er svo raunin?

Förum aðeins yfir það. Ég fór yfir það hér áðan og það kom fram á visir.is í gær að þetta fyrirtæki hefur lækkað gjaldið vegna lénanna að raungildi um 65% frá árinu 2000. Það er staðreynd. Ég hef engin tengsl við þá sem stýra þessu fyrirtæki. Ég hef farið og heimsótt þá, talað við þá í síma, en ég þekki þá ekki neitt. Hvorki Jens Pétur né Maríus. Við fórum og kynntum okkur starfsemina. Þeir byggðu þetta fyrirtæki upp og hver er árangurinn? Eitt öruggasta lén í heimi. Ég held að það sé ekki umdeilt. Síðan verða menn auðvitað að fara varlega.

Ég taldi mig vera bara með efnislegar spurningar í þessari umræðu. Ég var ekki með neinar fullyrðingar og ég held að ég og hæstv. ráðherra deilum ekki um að við viljum auðvitað reyna að búa um umhverfið þannig að það sé sem best fyrir neytendur og líka rekstur fyrirtækisins. Það er auðvitað sameiginlegt markmið. Ég bið hæstv. ráðherra um að nefna eitt dæmi þar sem ég var með einhverjar fullyrðingar eða annað en bara efnislegar spurningar gagnvart þeirri skyldu að afla sér upplýsinga um þau lög sem verið er að samþykkja. Það mætti kannski vera algengara að menn vissu hvað þeir væru að samþykkja hér í þessum sal, þó það eigi ekki við um hæstv. ráðherra.

Því ekki getur maður séð það oft og tíðum, þó það snúi ekki hér að þessu máli, að þeir sem eru að samþykkja það sem verið er að gera hafi hugmynd um hvað það er. Það væri kannski æskilegt að menn kynntu sér það. Mér fannst ég vera með efnislegar spurningar og vangaveltur. Hæstv. ráðherra svaraði sumu. Hann kom með sína sýn á það sem sneri að tengslum við landið og lögráða einstaklingum. Hann færði sín rök fyrir lénaskattinum, honum finnst hann hóflegur, mér finnst hann ekki hóflegur. Lénaskatturinn er tíu sinnum hærra gjald en önnur fjarskiptafyrirtæki þurfa að greiða. Er það ekki hér sem við eigum að hafa rökræðuna? Hafa hér orðaskipti? Ég hélt það og hæstv. ráðherra hefur nú verið, að minnsta kosti þau kynni sem ég hef haft af honum, málefnalegur í sínum málflutningi, hvort sem það er í þessu máli eða öðrum.