141. löggjafarþing — 66. fundur,  16. jan. 2013.

landslénið .is.

421. mál
[18:52]
Horfa

innanríkisráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Til að taka af allan vafa þá tel ég þann þingmann sem hér talaði vera mjög málefnalegan og sanngjarnan mann. Ég er ekki að gefa í skyn að neitt annarlegt vaki fyrir honum í þessu máli, né nokkru öðru máli sem hann hefur látið til sín taka hér á þinginu. Alls ekki. Svo það sé alveg skýrt.

Það sem ég er hins vegar að segja er að hér vegast á hagsmunir. Annars vegar samfélagslegir hagsmunir og hins vegar hagsmunir þessa fyrirtækis. Það kom mér á óvart að heyra þann málatilbúnað sem forsvarsmenn fyrirtækisins hafa haft uppi núna á síðustu vikum eftir að ég setti fram nýja útgáfu af þessu frumvarpi, þar sem tekið er tillit til sjónarmiða þeirra. Ég er einfaldlega að segja að mér hefur fundist, og það er gagnrýni mín á hv. þingmann, röksemdir hans og málflutningur vera svona á vogarskálarnar með hagsmunum þessa fyrirtækis. Ég er ekki að væna hv. þingmann um neinn óheiðarleika í því efni. Mér hefur bara fundist það.

Ég tel hins vegar að hinir samfélagslegu hagsmunir vegi þyngra og komi fram í því frumvarpi sem ég er að setja fram. Ég er ekki að væna hv. þingmann um nokkurn óheiðarleika eða um að draga taum fyrirtækisins á nokkurn óheiðarlegan hátt, ég er alls ekki að segja það. Ég er hins vegar að segja að ég tel að við höfum fundið hinn gullna meðalveg til að tryggja hagsmuni þessa fyrirtækis þannig að því vegni sem allra best en jafnframt samfélagslega hagsmuni. Ég tel að okkur hafi tekist það.