141. löggjafarþing — 66. fundur,  16. jan. 2013.

landslénið .is.

421. mál
[18:56]
Horfa

innanríkisráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil minna á að í fjarskiptaáætlun sem samþykkt var hér á þinginu er það markmið sett að við setjum lög um landslénið, þetta er nokkuð sem við höfum samþykkt á Alþingi. Samkvæmt þeim upplýsingum sem ég hef fengið þá voru um 7 þúsund lén skráð árið 2004 og árgjaldið þá um 12.500 krónur. Veltan var þá tæpar 90 milljónir króna. Í dag eru 41 þúsund skráð lén og árgjaldið orðið miklu minna, tæpar 7 þúsund krónur, en veltan um 290 milljónir króna. Þetta eru upplýsingar sem ég hef fengið. Þessi heimur er á breytingu og það er ein ástæðan fyrir því að við teljum að unnt sé að lækka gjaldið sem við setjum á .is sem þessu nemur. Það vakir alls ekki fyrir okkur að gera þetta að einhverri féþúfu nema síður sé. Það er markmið okkar að fyrirtækinu vegni vel en við viljum ekki að óhóflegur arður sé tekinn út úr því, alls ekki. Við erum að sjálfsögðu tilbúin að hafa þetta til stöðugrar endurskoðunar í ljósi þróunar í þessum efnum.

Við erum ekki að fara út í óhóflega eða ósanngjarna gjaldtöku, að því er við teljum, enda er það ekki eitthvað sem vakir fyrir okkur. Við erum einfaldlega að setja lagaramma og gjaldtöku sem kostar eftirlit sem þjónar okkur sem samfélagi og okkur sem erum viðskiptaaðilar við þetta fyrirtæki.