141. löggjafarþing — 67. fundur,  17. jan. 2013.

framvinda ESB-viðræðna.

[10:37]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Það er raunverulega ekkert meira að segja um það samkomulag sem gert var en ég hef sagt í þessum ræðustól. Fyrir liggur stjórnarsáttmáli milli þessara flokka um meðferð á ESB-ferlinu. Þar stendur skýrt og skorinort að ferlinu eigi að ljúka þegar samningur er tilbúinn með þjóðaratkvæðagreiðslu um niðurstöðuna. Það er það sem felst raunverulega í samkomulaginu að ferlinu lýkur ekki með einhverri tillögu á þessu þingi um að fresta viðræðum eins og stjórnarandstaðan vildi, að vísu með stuðningi eins stjórnarliða. Það lá fyrir tillaga um að fresta ferlinu en það er alveg ljóst að þetta samkomulag gildir og ég á ekki von á því að hér komi fram nokkur tillaga sem frestar því, enda væri það óráð. Það er þjóðin sjálf sem á að greiða atkvæði um niðurstöðuna (BÁ: Þýðir yfirlýsingin þá ekki neitt?) þegar hún liggur fyrir. (Gripið fram í.)