141. löggjafarþing — 67. fundur,  17. jan. 2013.

endurskoðun stjórnarskrárinnar.

[10:46]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S):

Frú forseti. Alþingi hefur í vetur fengist við nýtt frumvarp til stjórnarskrár, heildarendurskoðun á stjórnarskránni stendur fyrir dyrum. Í þessari vinnu hafa komið fram miklar athugasemdir, m.a. sérfræðinga, og það virðist augljóst að þingið er runnið út á tíma fyrir nokkru síðan til að fara í heildarendurskoðun stjórnarskrárinnar. Engu að síður lýsti hæstv. forsætisráðherra því mjög nýlega að málið væri eitt af forgangsverkefnum ríkisstjórnarinnar og að ekki kæmi annað til greina en að halda áfram með málið.

Nú síðast gerðist það í utanríkismálanefnd í morgun, þar sem nefndin er að fjalla um þann kafla sem lýtur að utanríkismálum og hefur fengið hann til umsagnar frá stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd, að fram kom að óformlega hefði verið tekin ákvörðun um að stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd lyki vinnu sinni á allra næstu dögum og þess vegna riði á að utanríkismálanefnd skilaði áliti sínu. Í þessum kafla er að finna mjög mikilvæg efnisatriði á borð við það hvort við Íslendingar eigum að setja í stjórnarskrá heimild til að framselja ríkisvaldið í stórauknum mæli miðað við það sem gilt hefur samkvæmt íslenskum rétti fram til þessa. Nefndin er í sjálfu sér ekki búin að útkljá umræðu um það en það stefnir í, að því er virðist, að nefndin sendi frá sér bara einhver sjónarmið til stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar.

Allt þetta ferli í þessu stóra máli kallar á vönduð vinnubrögð og ég vil bera það upp við hæstv. forsætisráðherra hvort það sé virkilega ein af hennar helstu kröfum til þingsins að málið verði í heild sinni klárað á næstu dögum. Þetta setur stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd í þá vandræðalegu stöðu að (Forseti hringir.) þurfa á næstu sólarhringum að senda frá sér algerlega ófullkomið og illa ígrundað álit undir stöðugum ábendingum sérfræðinga um að málið sé ekki nægjanlega vel undirbúið.