141. löggjafarþing — 67. fundur,  17. jan. 2013.

afstaða stjórnarþingmanna til ESB.

[10:54]
Horfa

Jón Bjarnason (Vg):

Frú forseti. Ég spyr hæstv. forsætisráðherra hvort ekki standi enn það sem var í byrjun þessa ríkisstjórnarsamstarfs, að hver og einn þingmaður mætti hafa sína skoðun á ESB-málinu, fylgja sannfæringu sinni, greiða atkvæði samkvæmt því í þingsal og standa að málum eins og hann kysi. Er það eitthvað breytt?

Ég rifja þetta upp vegna þess að við ríkisstjórnarmyndunina, þegar krafan um umsókn að Evrópusambandinu kom fram, var ljóst að innan þingflokks Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs var ekki fullur stuðningur við það. Það hefði ekki orðið ríkisstjórnarsamstarf milli þessara tveggja flokka ef það hefði verið gert að kröfu við ríkisstjórnarmyndun því að fimm þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs greiddu atkvæði gegn því að senda umsóknina. Þar með var þetta ekki ríkisstjórnarmál, heldur var fallist á að meiri hluti þingsins réði því hvort umsóknin yrði send eða ekki.

Þegar menn eru farnir að breyta sögunni eftir á, jafnvel forsætisráðherra, og segja að þetta hafi í upphafi verið ríkisstjórnarmál er það rangt. Það átti að fara þá leið að láta hæstv. utanríkisráðherra flytja málið sem þingmannamál inn í þingið, sem þingmann eða ráðherra. Þannig bar þetta að á sínum tíma og er rétt að fylgja því eftir og hafa það sem satt er en ekki fara með rangindi eins og hæstv. forsætisráðherra hefur gert í aðdraganda þessa máls. Það var ekki meiri hluti meðal stjórnarflokkanna fyrir þessu máli í upphafi og ef þetta hefði orðið ríkisstjórnarmál hefði að mínu mati ekki orðið til ríkisstjórn þessara tveggja flokka.

Alþingi samþykkti þessa tillögu með greinargerð og þar er líka skýrt kveðið á um að samningsumboð (Forseti hringir.) ríkisstjórnarinnar sé skilyrt þannig að verði að víkja frá því sem þar er ákveðið verður það að koma aftur inn til þingsins. Ég spyr (Forseti hringir.) hæstv. forsætisráðherra: Er hún hér að hunsa það að þingið megi koma aftur að málinu með því að koma í veg fyrir að það fari út úr utanríkismálanefnd?