141. löggjafarþing — 67. fundur,  17. jan. 2013.

afstaða stjórnarþingmanna til ESB.

[11:00]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Mér finnst þetta mál liggja ljóst fyrir og ég skil ekki af hverju þarf að stafa það svona ofan í þingmenn hvernig þetta liggur fyrir. Það er fyrst og fremst stjórnarsáttmálinn sem við styðjumst við. Það er þingsályktunartillagan sem var samþykkt á Alþingi 2009 og sú leiðsögn sem hún gefur sem við styðjumst við. Það að fara að samþykkja tillögu sem hv. þingmaður vildi gera með því að mynda meiri hluta með stjórnarandstöðunni, að stöðva ferlið eða slíta því, hefði verið andstætt stjórnarsáttmálanum. Það er alveg ljóst. Þarf þá þingmanninum eitthvað að koma á óvart að samstarfi Vinstri grænna og Samfylkingar hefði verið sjálfhætt, þ.e. ef tillaga sem hv. þingmaður beitti sér fyrir hefði náð fram að ganga? Ég held að það sé alveg ljóst og skýrt og ætti ekki að koma hv. þingmanni neitt á óvart í þessu efni. (Gripið fram í.)

Hv. þingmaður hefur lagt sig mjög fram um að fá vilja sínum framgengt í þessu, þ.e. að stöðva ESB-ferlið, gert það með margvíslegum hætti og tafið ferlið. Það er bara hans mál og málið er núna í þessari stöðu. Ferlinu verður haldið áfram eins og því hefur verið lýst í því samkomulagi sem flokkarnir hafa gert í þessu máli og vonandi heldur það áfram eftir kosningar. Þingsályktunartillagan frá 2009 kveður að minnsta kosti á um það meðan henni er ekki breytt.