141. löggjafarþing — 67. fundur,  17. jan. 2013.

leyfi til olíuleitar og vinnslu.

[11:02]
Horfa

Jón Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Nýlega náðist sá ánægjulegi áfangi í olíuleitarmálum okkar á Drekasvæðinu að gengið var frá samningum við tvö fyrirtæki sem hefja ítarlegar rannsóknir á því svæði. Um er að ræða fyrirtæki með mikla reynslu á þessum vettvangi og samstarf við Norðmenn tryggir ákveðin gæði vinnunnar að okkar mati. Tímabil leyfisins er til sjö ára en það er framlengjanlegt upp í 16 ár og ítarlega er farið yfir það í samningnum sem gerður er við þessi fyrirtæki hvað vinnst á ákveðnum undirtímabilum. Á síðasta og þriðja undirtímabili skal leyfishafi ljúka eftirfarandi rannsóknum sem er borun á rannsóknarholu.

Það hefur verið óþægilegt, fyrir alla sem að málinu koma, hvernig hæstv. atvinnuvegaráðherra hefur tjáð sig um framgang þess finnist vinnanleg olía á svæðinu. Það hefur að minnsta kosti verið loðið — yfirlýsingar um hvert framhald málsins verður, að óljóst sé hvort um verði að ræða frekari vinnslu, þau leyfi sem hafa verið gefin út séu eingöngu til rannsókna og engin ákvörðun liggi fyrir um hvort um frekari vinnslu verði að ræða á svæðinu.

Ég vil inna hæstv. umhverfisráðherra eftir skoðun hennar á þessu máli og spyrja hana að því hver afstaða hennar sé gagnvart þessum samningum, þeim rannsóknum sem þarna fara fram, hver afstaða hennar sé gagnvart því að frekari vinnsla fari fram á svæðinu finnist vinnanlegar olíulindir þar. Þá er ég að sjálfsögðu að tala um að því tilskildu að ýtrustu kröfur verði gerðar í umhverfis- og öryggismálum og að þær verði að fullu í samræmi við íslensk lög.