141. löggjafarþing — 67. fundur,  17. jan. 2013.

leyfi til olíuleitar og vinnslu.

[11:04]
Horfa

umhverfis- og auðlindaráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrirspurnina. Þetta er afar mikilvægt umræðuefni. Það sem ég hef kannski haft mestar áhyggjur af í þessu efni er hversu mikið hefur skort á gagnrýna umræðu um olíuleitarmálin í samfélaginu almennt. Það er raunar kjarninn í umsögn umhverfis- og auðlindaráðuneytisins þegar Orkustofnun óskar eftir umsögn vegna þeirra þriggja sérleyfa sem verið var að sækja um. Í þeirri umsögn er dregið fram að sérstaklega þurfi að fara yfir málin með mjög gagnrýnu hugarfari vegna þess að þarna eru undir, eins og kemur raunar fram í fyrirspurn hv. þingmanns, alveg gríðarlegir hagsmunir. Í mínum huga er ekki verjandi að taka neina áhættu í því að við sætum uppi með skaða á lífríki hafsins sem fæli í sér veruleg inngrip í lífríki þessa svæðis með afleiðingum á lífsgæði okkar og hagkerfi.

Einnig má velta upp öðrum sjónarmiðum, sem hafa kannski ekki fengið eins mikið rými í þessari umræðu, og það er samhengi hugsanlegrar vinnslu olíu og gass í íslenskri lögsögu við loftslagsbreytingar af manna völdum sem orsakast fyrst og fremst af brennslu jarðefnaeldsneytis. Það er staðreynd að það er ákveðin þversögn að hratt undanhald íss á norðurslóðum er bæði skýrasta dæmið um öra hlýnun andrúmsloftsins og helsta forsenda þess að auka til muna vinnslu olíu og gass á heimsvísu á þessu svæði. Það er mikilvægt að hv. þingmaður taki þetta mál upp vegna þess að margar hliðar eru óræddar í því efni.