141. löggjafarþing — 67. fundur,  17. jan. 2013.

leyfi til olíuleitar og vinnslu.

[11:06]
Horfa

Jón Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Ég vil fara fram á það við hæstv. ráðherra að hún fari í þessa umræðu á öðrum vettvangi. Ég var ekki að kalla eftir þeirri umræðu sem hún bryddaði hér upp á. Ég var að leita svara við ákveðnum spurningum sem voru skýrt fram settar til hennar og ég vil ítreka þær. Ég vil ekki ræða um skort á gagnrýninni umræðu, við erum búin að fara í gegnum þetta ferli og rannsóknarleyfin liggja fyrir. Er hún sammála hæstv. atvinnuvegaráðherra í því að leyfin muni ekki leiða til vinnslu á svæðinu?

Ég vil vitna í samninginn, með leyfi forseta, sem er gerður af hálfu Orkustofnunar við rannsóknarleyfishafa. Að uppfylltum skilyrðum leyfisins á leyfishafi forgangsrétt á framlengingu leyfisins til vinnslu kolvetnis í allt að 30 ár eftir að mögulega lengsta tíma rannsóknarvinnunnar verður lokið, eftir hámark 16 ár. Ég vil bara fá svör hæstv. umhverfisráðherra við því hvernig hún túlkar þetta, hvort ekki liggi fyrir að sú vegferð sem við erum lögð af stað í muni leiða til þess að finnist vinnanlegar olíulindir á þessu svæði (Forseti hringir.) þá erum við samkvæmt þessum samningi að fara í vinnslu. Og ég vil ekki fá neina frekari útúrsnúninga frá ráðherranum.