141. löggjafarþing — 67. fundur,  17. jan. 2013.

orð forsætisráðherra í óundirbúnum fyrirspurnatíma.

[11:19]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Ég lýsi yfir stuðningi við beiðni hv. þm. Gunnars Braga Sveinssonar til virðulegs forseta þingsins. Ég hlýddi á ummæli hæstv. forsætisráðherra þar sem hún kvartaði yfir því að snúið væri út úr ummælum sínum.

Virðulegi forseti. Vandinn er nú kannski sá að eitt eru yfirlýsingar hæstv. forsætisráðherrans og hitt eru síðan gerðir hæstv. forsætisráðherra. Yfirlýsinguna um að samskipti þings og framkvæmdarvalds séu nú með öðrum hætti, þau hafi breyst á þessu kjörtímabili þannig að þingið sé nú sjálfstæðara en áður, ber að virða og skoða í samhengi við aðgerðir hæstv. forsætisráðherra. Það er augljóst hverjum manni hvað gerst hefur. Og eitthvert orðagjálfur um að það hafi ekki átt sér stað að hv. þingmanni hafi verið vikið úr nefnd vegna afstöðu hans og vegna þess máls (Forseti hringir.) sem þar var inni dæmir sig auðvitað sjálft. Það sjá allir í gegnum það.

Hæstv. forsætisráðherra þarf því ekki að vera hissa á því þó að (Forseti hringir.) menn reyni að lesa í orð viðkomandi hæstv. ráðherra.