141. löggjafarþing — 67. fundur,  17. jan. 2013.

orð forsætisráðherra í óundirbúnum fyrirspurnatíma.

[11:23]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Það er annað mál sem ég ætlaði að nefna hér sem ég hef þungar áhyggjur af. Þær fréttir berast úr einstökum nefndum þingsins að verið sé að ljúka umsögnum um stjórnarskrárfrumvarpið, í sumum tilvikum í miklu skyndi, í sumum tilvikum án nokkurrar umfjöllunar.

Ég vil vekja athygli hæstv. forseta á því einmitt vegna sjálfstæðis þingsins og vegna mikilvægs hlutverks þess við að semja nýja stjórnarskrá. Ég vil vekja athygli hæstv. forseta á því að vinnubrögðin, í sumum nefndum að minnsta kosti, virðast vera afar fátkennd, fumkennd og alls ekki samboðin því verkefni sem fyrir liggur.

Það segi ég ekki síst vegna þess að sem nefndarmanni í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd hefur mér borist til eyrna að stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd ætli að nota lágmarkstíma til (Forseti hringir.) þess að fara yfir þær umsagnir sem koma frá öðrum nefndum. Það er skandall, það er hneyksli, hæstv. forseti, ef fljótaskrift verður á málum í (Forseti hringir.) í fagnefndunum og eins í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd, en það óttast ég mjög þessa dagana.