141. löggjafarþing — 67. fundur,  17. jan. 2013.

orð forsætisráðherra í óundirbúnum fyrirspurnatíma.

[11:26]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Ekki vil ég nú snúa út úr orðum hæstv. forsætisráðherra. Hæstv. forsætisráðherra kvartaði undan því að snúið hefði verið út úr orðum hennar hérna áðan. Þess vegna vil ég fara fram á það að hæstv. forsætisráðherra skýri betur afstöðu sína til þess máls sem við ræðum hérna. Ég kallaði eftir því að hæstv. utanríkisráðherra gerði það líka. Hann gerði það ekki, hann notaði ekki tækifærið til þess.

Spurningin er þessi: Er ekki mjög nauðsynlegt við þær aðstæður sem uppi eru núna að við komumst að niðurstöðu um það hver raunverulegur þingvilji er í þessu máli? Hægt er að gera það með því að afgreiða tillöguna úr utanríkismálanefnd sem þar liggur fyrir þannig að hún komist á dagskrá og við getum rætt hana og komist hér að efnislegri niðurstöðu um málið.

Af hverju geta hæstv. ráðherrar ekki svarað því skýrt og skorinort hvort þeir eru á móti því að málið komi hingað til efnislegrar niðurstöðu? Ég ítreka spurninguna til hæstv. forsætisráðherra: Er hæstv. forsætisráðherra á móti því að málið komi til umfjöllunar á Alþingi og að við útkljáum málið hérna?

Ég vil líka vekja athygli á því að fulltrúar Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs (Forseti hringir.) þegja algjörlega undir þessari umræðu alveg eins og þeir þögðu undir umræðunni í gær. Ég ítreka líka spurninguna til þeirra: (Forseti hringir.) Hver er afstaða Vinstri grænna til þess að málið komi hingað til efnislegrar afstöðu?