141. löggjafarþing — 67. fundur,  17. jan. 2013.

orð forsætisráðherra í óundirbúnum fyrirspurnatíma.

[11:29]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Lýsing hv. þm. Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur á vinnubrögðum í hv. allsherjar- og menntamálanefnd er með ólíkindum. Ég fer fram á það, virðulegi forseti, að kannað verði hvort þetta sé raunin og að virðulegi forseti kalli til sín formann nefndarinnar og fái útskýringu á því hvernig stendur á þessu og hvaða rök séu fyrir því að reka mál nefndarinnar með þessum hætti.

Það verður ekki við það unað, virðulegi forseti, að farið verði fram með þessum hætti í þinginu. Við þingmenn Sjálfstæðisflokksins munum ekki sætta okkur við að þetta verði vinnubrögðin hvað varðar breytingar á stjórnarskrá, það er útilokað mál, virðulegi forseti. Og ég trúi því ekki fyrr en ég tek á því (Forseti hringir.) að fyrir liggi samþykki af hálfu hv. þingmanna stjórnarliðsins fyrir slíkum vinnubrögðum. Ég trúi því ekki fyrr en ég tek á því.