141. löggjafarþing — 67. fundur,  17. jan. 2013.

orð forsætisráðherra í óundirbúnum fyrirspurnatíma.

[11:31]
Horfa

Jón Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Það er með ólíkindum að fylgjast með vinnubrögðum hæstv. ráðherra (Gripið fram í.) í þessu máli. Þar í fararbroddi fara auðvitað hæstv. forsætisráðherra og hæstv. utanríkisráðherra sem talar hér eins og kórdrengur. (Utanrrh.: Eins og alltaf.) Við verðum vitni að vinnubrögðum sem eru auðvitað ekkert annað en ákveðin undirmálsvinnubrögð. Í þessu felst mikill valdhroki, gróf aðför að lýðræði og sjálfstæði þingsins. Það er gríðarlega alvarlegt.

Auðvitað getur hæstv. ríkisstjórn beitt þeim vinnubrögðum að skipta endalaust um fólk í nefndum til að mynda þar meiri hluta, til að koma óþægilegum málum fyrir ríkisstjórnina á dagskrá. En við þetta verður ekki unað. Það er ekki hægt að horfa upp á að vegið sé svo að sjálfstæði þingsins eins og við erum að verða vitni að. (Forseti hringir.) Það sannast hér hið fornkveðna sem ég hef áður sagt: Þegar kommúnisminn og lýðræðið mætast (Forseti hringir.) þá skal lýðræðið víkja, og það kristallast í þessu máli.

(Forseti (ÁRJ): Forseti biður menn aðeins um að gæta orða sinna í ræðustól.)