141. löggjafarþing — 67. fundur,  17. jan. 2013.

orð forsætisráðherra í óundirbúnum fyrirspurnatíma.

[11:33]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Ástæða þess að ég tók þetta mál um vinnubrögðin í nefndum þingsins út af stjórnarskrármálinu upp við þessa umræðu í dag var að vekja athygli hæstv. forseta á vinnubrögðum sem eru í mörgum tilvikum — kannski ekki öllum, ég ætla ekki að alhæfa um allar nefndir, en í ákveðnum tilvikum eins og hér hefur verið rakið — fyrir neðan allar hellur.

Ég vil vekja athygli hæstv. forseta á þessu núna vegna þess að enn er hugsanlega hægt að hafa áhrif á atburðarásina og koma málum í skynsamlegri farveg en stefnir í. Enn eiga einhverjar nefndir eftir að ljúka umfjöllun sinni, flestar hygg ég raunar, og það er mjög mikilvægt að ekki verði sömu subbulegu vinnubrögðum beitt eins og í hv. allsherjar- og menntamálanefnd og hér hefur verið lýst.

Ég vil líka geta þess að í sjálfu sér var það jákvætt skref hjá meiri hlutanum í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd að senda málið til umfjöllunar í öðrum nefndum þingsins. Ég held að það hafi verið gott skref (Forseti hringir.) og menn voru með góða málsmeðferð í höndunum, en virðast vera að klúðra henni með þessum fádæmalausu vinnubrögðum á endasprettinum.