141. löggjafarþing — 67. fundur,  17. jan. 2013.

framkvæmdaáætlun í barnavernd til 2014.

458. mál
[11:51]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Ég fagna því að þessi þingsályktunartillaga um framkvæmdaáætlun í barnavernd fram til næstu sveitarstjórnarkosninga árið 2014 sé komin fram. Við erum að mínu mati að ræða eitt brýnasta viðfangsefni sem við þurfum að takast á við á Alþingi og er ég þá ekki að kasta rýrð á mörg þau stóru mál sem við erum að fást við, en hagur og velferð barna er þannig mál að við hljótum að reyna að setja það með öllum tiltækum ráðum í forgrunn.

Ég ætla að fara almennum orðum yfir viðhorf mín. Við stöndum frammi fyrir því að mjög margt hefur breyst í umhverfi barna í landinu. Þær ógnir sem börn glímdu við hér fyrr meir hafa á margan hátt horfið en nýjar ógnir og kannski enn þá alvarlegri á margan hátt hafa steðjað að börnunum í vaxandi mæli. Þjóðfélag okkar hefur breyst og við þurfum þess vegna að taka þessi mál öðrum tökum en við höfum stundum gert í liðinni tíð. Það sem blasir þar við og er auðvitað mikilvægast og nær út af fyrir sig út fyrir þann ramma sem þessari þingsályktunartillögu er ætlað að ná utan um er auðvitað með hvaða hætti við getum stuðlað að auknum samvistum barna og foreldra því að allar rannsóknir sem við höfum kynnt okkur í þessum efnum og sjáum segja okkur að auknar samvistir barna og foreldra er langsamlega mikilvægast af því sem við getum gert til að stuðla að aukinni velferð barna og koma í veg fyrir að þau lendi á glapstigum eða í erfiðleikum af þeim ástæðum.

Þetta er mikilvægasta málið að mínu mati, sem við þurfum að hafa í hyggju, og þegar við ræðum þessa þingsályktunartillögu núna, sem tekur fremur fyrir margs konar úrræði til að bregðast við ýmiss konar erfiðleikum sem börn verða fyrir á lífsleiðinni, þá þurfum við umfram allt að hafa í huga það sem ég hef sagt hérna með almennum orðum.

Við höfum sett á laggirnar ýmsar sérhæfðar stofnanir. Við höfum beitt ýmsum sérhæfðum úrræðum. Það er auðvitað kjarni málsins þegar kemur að því síðan að bregðast við þeim vanda sem börn standa frammi fyrir af mjög margvíslegum ástæðum. Það er alveg ljóst að við þurfum að gera betur.

Margt bendir til þess að við höfum ekki náð utan um það að búa til þessi úrræði með þeim sérhæfða hætti sem vandamálin sem steðja að börnunum kalla vissulega á. Þegar við í velferðarnefnd Alþingis höfum farið yfir mál af þessum toga með sérfræðingum víðs vegar að úr þjóðfélaginu, bæði á velferðarsviðinu, fulltrúum meðferðarstofnana og þeirra stofnana sem yfir þeim ráða, með fulltrúum heilsugæslunnar, heilbrigðisstofnana, sveitarfélögum o.s.frv., þá sjáum við að það vantar í mörgum tilvikum heilmikið þarna upp á. Ástæðurnar eru auðvitað þær að þau vandamál sem steðja að börnum sem af einhverjum ástæðum þarf að meðhöndla með sértækum hætti eru einfaldlega svo sérgreind og sérhæfð að þau kalla á sérstakar lausnir.

Ég vil líka segja að auðvitað eiga mörg slíkra viðfangsefna ekki endilega að fara fram á meðferðarstofnunum heldur er það kappsmál, eins og hæstv. ráðherra nefndi hérna áðan, að við getum meðhöndlað eða tekist á við þessi mál án þess að til þess komi að börnin eða unglingarnir þurfi að fara inn á sérhæfðar meðferðarstofnanir þó að þær séu mikilvægar og þær gegni mjög miklu hlutverki.

Ég nefni sem dæmi börn sem koma frá brotnum heimilum af ýmsum ástæðum, vegna óreglu eða annarra aðstæðna, vegna fjölskylduaðstæðna, vegna fátæktar, vegna þess að heimilin eru einhverra hluta vegna ekki í færum til þess að veita börnunum það skjól sem þau þurfa á að halda inni á heimilum sínum.

Ég nefni í öðru lagi börn sem eiga við að glíma margvíslega þroskaskerðingu og í því sambandi þurfum við líka að hafa það í huga að við getum ekki talað um þroskaskerðingu sem einfalt hugtak, þar getur verið um að ræða margvíslega gerð af þroskaskerðingu sem við þurfum þá að takast á við með mismunandi hætti.

Í þriðja lagi nefni ég eitt mál sem mikið er rætt um og það eru börn sem eru með það sem kallað er í dag ADHD, sem er hugtak sem er tiltölulega nýtt í allri umræðunni, sennilega vegna þess að við höfðum ekki burði til þess áður fyrr að greina þann vanda sem þessi börn glíma við. Við töluðum um fyrirferðarmikil börn hér í gamla daga, börn sem voru óþekk o.s.frv. Ástæðurnar voru kannski í ýmsum tilvikum ekki óþekkt eða fyrirferð í þeim skilningi sem við lögðum í það hugtak heldur vegna þess að um var að ræða sjúkdóm sem við köllum svo í dag sem er ADHD. Ég nefni þetta eingöngu í dæmaskyni.

Í fjórða lagi er auðvitað mál sem hefur verið mikið í umræðunni upp á síðkastið og það eru börn sem glíma við afleiðingar misnotkunar og ofbeldis, bæði kynferðislegrar misnotkunar inni á heimilum, kynferðislegrar misnotkunar á vistunarheimilum, kynferðislegrar misnotkunar utan þessara heimila, þ.e. heimila barnanna og meðferðarheimila, og annars konar misnotkunar sem þau hafa orðið að þola, svo ekki sé talað um ofbeldi sem allt of mörg börn þola því miður sjálf og eru síðan áhorfendur að inni á heimilum, eins og við þekkjum dæmi um, og getur síðan haft varanleg áhrif á þessi börn og birtist í hegðun þeirra þegar fram í sækir. Þetta er gríðarlega vandasamt mál vegna þess að mörg þessara tilvika eru þannig að þeim sem utan standa er ekki í öllum tilvikum ljóst hvað fram fer innan vistheimila, eins og fram hefur komið, á heimilunum og utan heimilanna eins og við þekkjum svo mörg dæmi um.

Síðast en ekki síst vil ég nefna börn sem hafa lent á glapstigum af einhverjum ástæðum, hafa gerst brotleg við lög og þarf auðvitað að takast á við með sérstökum hætti, alveg óskyldum þeim til dæmis úrræðum sem ég vék að í dæmaskyni áðan. Það sem mér finnst hins vegar blasa dálítið við í þessari umræðu allri, og sérstaklega fyrir þann sem kemur utan frá, er að það virðist vera frekar mikið flækjustig í þessum efnum. Ég held þess vegna að það sé mjög brýnt og hljóti að vera eitt af því sem við þurfum að skoða vel hvernig við getum einfaldað fyrirkomulagið frá því sem nú er, í þeim skilningi að öllum sé það ljóst sem þurfa að leita sér aðstoðar á því sviði sem ég hef nefnt hérna hvernig þeir geti leitað þessarar aðstoðar.

Hvert fer fólk? Hvert fer fólk við þær aðstæður sem upp geta komið á margvíslegum sviðum, svo sem vegna þroskaskerðingar, einhverrar atferlisröskunar, misnotkunar eða veikinda? Hvar er fyrsta stoppistöðin? Í mörgum tilvikum blasir við að það kunni að vera og eigi að vera heilsugæslan. Það er þó ekki alveg augljóst þeim sem þurfa að leita þjónustunnar. Við sem samfélag þurfum að bregðast þannig við að fólki, sem þarf að leita aðstoðar fyrir börnin sín eða börnin að leita sér aðstoðar ef þau hafa til þess aldur og þroska, sé nokkuð ljóst hvert það eigi fyrst að leita eftir aðstoð.

Hvert er hlutverk skólanna í þessum efnum? Hvernig eiga skólarnir að fylgjast með og bregðast við? Það hefur til dæmis komið fram í velferðarnefnd að menn telja að ágætlega sé fyrir ýmiss konar þjónustu séð á fyrstu skólastigunum, leikskólum og grunnskólum, en síðan taki við eitthvert tómarúm eftir það. Við þurfum líka að gæta þess að það sé eitthvert áframhald þegar börn og unglingar hafa fengið einhvers konar úrræði í skólum að ekki taki við óvissa þegar skipt er um skólastig.

Það getur líka myndast ákveðið flækjustig vegna þess að ýmsir aðilar koma að málum. Það getur verið ríkið, það geta verið einstaklingar, það getur verið sveitarfélagið. Við þurfum að gæta þess til dæmis við verkefnatilflutninginn milli ríkis og sveitarfélaga að ekki skapist einhver óvissa. Það kemur fram hér í greinargerð með tillögunni, eins og við vitum, að með breytingu á barnaverndarlögunum sem eiga að taka gildi 1. janúar næstkomandi mun ríkið taka yfir rekstur vistheimila fyrir börn sem eru núna á vegum sveitarfélaga. Erum við tilbúin til þess? Höfum við farið yfir það hvort ríkið geti í raun og veru tekið yfir þessa þjónustu svo að fullnægjandi sé? Við fengum slíkt dæmi hingað inn og urðum að breyta lögum vegna þess að ríkið var að hluta til ekki tilbúið eða hafði ekki burði til þess að taka yfir þjónustu sem sveitarfélag, í þessu tilviki Reykjavíkurborg, hafði sinnt og menn óttuðust að upp gæti komið vandi og varð niðurstaðan sú að fresta þeim hluta yfirtökunnar.

Ég er aðeins að vekja athygli á þessu í almennum orðum við fyrri umræðu þessa máls. Þetta mál kemur inn til velferðarnefndar og ég ítreka að ég tel að það sé gríðarlega stórt og mikið. Mér hefur að minnsta kosti orðið það ljósara en áður að á því þurfum við að taka mjög markvisst.