141. löggjafarþing — 67. fundur,  17. jan. 2013.

velferðarstefna -- heilbrigðisáætlun til ársins 2020.

470. mál
[12:35]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Við þurfum ekkert að deila um fjölda starfa, um hann eru til opinberar tölur. Þegar hæstv. ríkisstjórn hreykti sér af því að hafa náð árangri í að minnka atvinnuleysið var bara vísað í tölur Hagstofunnar um staðreyndina í því máli. Það voru ekki bara stjórnmálamenn sem bentu á það, það voru aðilar um allt þjóðfélag.

Eins og ég nefndi hefur mikill fjöldi fólks flutt til útlanda. Ætli það séu ekki um fimm á dag frá því að þessi ríkisstjórn tók við. Þetta eru ótrúlegir tímar, það er alveg rétt, virðulegi forseti, og þess vegna skiptir svo miklu máli að halda vel utan um þessa þætti. Það er ekkert nýtt í þessu. Við berum okkur saman við stöðu sem kom upp á Norðurlöndunum og það voru ráðleggingar þeirra að það væri aldrei mikilvægara en nú að stunda öflugar forvarnir.

Stjórnmálamenn hafa mismunandi áherslur og menn vilja örugglega setja mark sitt á viðkomandi málaflokka. Það er allt í fínu lagi, en staðreyndin er sú að ekkert var gert með þá vinnu sem unnin var, með þær áætlanir sem voru til staðar sem voru tímasettar með ábyrgðaraðilum o.s.frv. Nú koma menn rétt fyrir kosningar og segja: Við þurfum að fara í ákveðna vinnu sem viðkomandi ríkisstjórn stöðvaði sjálf.

Greiðsluþátttakan er gott dæmi. Ef ekki var hægt að klára þetta 2009 — vinnan var stöðvuð, það var engin önnur vinna sett í staðinn, það var ekkert annað sem kom fyrir þingið. Þetta eru engin geimvísindi, þetta er bara það sama og aðrar þjóðir hafa farið í gegnum og við vorum að læra af þeim.

Nú er árið 2013. Þessi ríkisstjórn (Forseti hringir.) tók við 2009. Ef þetta var ekki tilbúið 2009, af hverju var það ekki tilbúið 2010?