141. löggjafarþing — 67. fundur,  17. jan. 2013.

fjölmiðlar.

490. mál
[13:35]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi um breytingu á fjölmiðlalögum, nr. 38/2011. Um er að ræða sama frumvarp og ég mælti fyrir á 140. löggjafarþingi, en gerðar hafa verið á því breytingar, meðal annars í samræmi við nefndarálit meiri hluta allsherjar- og menntamálanefndar frá 8. júní 2012.

Tilefni þessa frumvarps er að lögfesta reglur um eignarhald á fjölmiðlum samkvæmt tillögum þverpólitískrar nefndar sem ég skipaði þann 6. apríl 2011. Sú nefnd lauk störfum á haustmánuðum sama ár. Á vegum ráðuneytisins hefur einnig verið unnið að tillögum að breytingum á nokkrum þáttum laganna því komið hafa í ljós nokkrir annmarkar eftir gildistöku þeirra.

Helstu atriði frumvarpsins eru: Í fyrsta lagi er lagt til að lögfestar verði reglur með matskenndum heimildum til að varna óæskilegum áhrifum samþjöppunar á eignarhaldi á fjölmiðlum og þær verði í höndum Samkeppniseftirlits og fjölmiðlanefndar. Í öðru lagi er lagt til að tekið verði upp virkt eftirlit með samruna á fjölmiðlaveitum og heimildir veittar til að grípa til aðgerða gegn aðstæðum sem koma í veg fyrir, takmarka eða raska samkeppni. Í þriðja lagi er lagt til að Samkeppniseftirlitinu verði veittar auknar heimildir á grundvelli fjölmiðlaréttarlegra sjónarmiða, bæði til að vinna gegn skaðlegri samþjöppun og eignarhaldi fjölmiðla til framtíðar litið sem og til að grípa til aðgerða gegn þeim aðstæðum sem þegar eru uppi, ef þörf krefur.

Aðrar breytingar sem felast í frumvarpinu eru eftirfarandi: Í fyrsta lagi eru lagðar til breytingar á hugtakinu ábyrgðarmaður og nánar fjallað um það hver getur talist ábyrgðarmaður á efni sem er miðlað. Í öðru lagi er lagt til að vísað sé til tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins 2010/13/ESB frá 10. mars 2010 um samræmingu tiltekinna ákvæða í lögum á stjórnsýslufyrirmælum í aðildarríkjunum um sjónvarpsrekstur í stað eldri tilskipunar sem er tilgreind í lögunum. Í þriðja lagi er mælt fyrir um að fjölmiðlanefnd skuli öðlast heimild til að krefjast upplýsinga um raunverulegt eignarhald þannig að rekja megi eignarhald og/eða yfirráð til einstaklinga, félagasamtaka, opinberra aðila og/eða þeirra sem veita þjónustu fyrir opinbera aðila. Í fjórða lagi er lagt til að gert verði refsivert að miðla hatursáróðri, en einungis er heimilt að refsa fjölmiðlum fyrir að hvetja til refsiverðrar háttsemi samkvæmt gildandi fjölmiðlalögum. Í fimmta lagi er lagt til breytt orðalag á 26. gr. laganna sem kveður á um lýðræðislegar grundvallarreglur til að leggja frekari áherslu á að í friðhelgi einkalífs felast mikilvæg mannréttindi sem ber að virða þegar fjallað er um viðkvæm mál í fjölmiðlum, nema lýðræðishlutverk fjölmiðils og upplýsingaréttur almennings krefjist annars. Í sjötta lagi er svo mælt fyrir um ýmsar orðalagsbreytingar sem er talið brýnt að verði bætt úr.

Þá voru nokkrar breytingar gerðar á frumvarpinu við vinnslu þess samkvæmt ábendingum sem komu frá þverpólitísku nefndinni sem ég nefndi hér áðan og ég mun kalla héðan í frá eignarhaldsnefndina. Þá ætla ég fyrst að víkja að því sem kom frá þeirri nefnd og snýr að eignarhaldi á fjölmiðlum.

Eins og hv. þingmenn þekkja vel þá má segja að álitamál um eignarhald hafi verið hvað fyrirferðarmest í þeirri miklu umræðu sem hefur farið fram um fjölmiðla í samfélaginu undanfarinn áratug. Þau álitamál voru auðvitað í brennidepli á vettvangi beggja fjölmiðlanefndanna sem störfuðu á árunum 2004 og 2005. Það má eiginlega segja að þau hafi yfirskyggt allar aðrar tillögur sem fram komu á þeim vettvangi. Í skilagrein þeirrar þverpólitísku fjölmiðlanefndar sem lauk störfum vorið 2005 voru gerðar tillögur um eignarhald á fjölmiðlum og mögulegar takmarkanir þar á, auk tillagna um reglur um gagnsæi eignarhalds fjölmiðla.

Í því frumvarpi sem var lagt fram í tvígang árið 2006 voru þessar tillögur færðar í frumvarpsbúning en þær urðu því miður aldrei að lögum. Við gerð frumvarps til heildarlaga um fjölmiðla var síðan ákveðið að gera fyrst nauðsynlegar endurbætur á lagaumhverfi fjölmiðla áður en lagt væri enn einu sinni til atlögu við spurningar um eignarhald og um þetta var talsvert rætt þegar ég mælti fyrir því frumvarpi. Töldu sumir að hér væri verið að setja mikilvægasta málið til hliðar en það var mín einbeitta skoðun út frá reynslu sögunnar í þessari umræðu að ljúka yrði við heildarlöggjöfina áður en þessi mál væru tekin fyrir.

Önnur ástæða var líka fyrir því. Þrátt fyrir að ýmsar þær meginforsendur sem fjölmiðlanefndin frá árinu 2005 lagði til grundvallar hafi að sumu leyti verið í fullu gildi við gerð fjölmiðlafrumvarpsins, þá höfðu aðrar forsendur breyst að því marki að nauðsynlegt var að endurskoða niðurstöðurnar. Þar ber hæst að miklar eignatilfærslur hafa átt sér stað á síðastliðnum átta árum og ekki síður að vægi nýrra miðlunarleiða í fjölmiðlum, sérstaklega netmiðlum, hefur gjörbreyst á þessum tíma. Tillögur fjölmiðlanefndarinnar frá árinu 2005 gerðu einungis ráð fyrir að eignarhaldstakmarkanir næðu til hefðbundinna prent- og ljósvakamiðla en eins og hv. þingmönnum er kunnugt er mjög erfitt orðið að gera greinarmun á netmiðlum og síðan prent- og ljósvakamiðlum. Í fjölmiðlafrumvarpinu var því sett ákvæði um að skipuð yrði ný þverpólitísk og fagleg nefnd til að meta þessi álitamál um eignarhald á fjölmiðlum, þörfina á takmörkunum á eignarhaldi og útfærslu þeirra.

Ég ætla hér að vitna til þess ákvæðis sem var sett til bráðabirgða í fjölmiðlalögunum og hljóðaði svo, með leyfi forseta: „Mennta- og menningarmálaráðherra skal skipa nefnd til að gera tillögur í frumvarpsformi um viðeigandi takmarkanir á eignarhaldi á fjölmiðlum. Nefndin skal skipuð einum fulltrúa hvers þingflokks sem á sæti á Alþingi við skipan hennar. Þess utan skipar ráðherra formann og varaformann nefndarinnar og skulu þeir vera sérfróðir um fjölmiðlamál. Nefndin skal í störfum sínum og eftir því sem við getur átt taka sérstakt mið af forsendum og niðurstöðum fjölmiðlanefndar þeirrar sem lauk störfum með skýrslu í apríl 2005. Nefndin skal skila tillögum sínum fyrir 1. júní 2011.“

Eins og hv. þingmenn heyrðu þá er vísað sérstaklega til niðurstaðna fjölmiðlanefndarinnar frá 2005 í fyrrnefndu ákvæði. Þær niðurstöður voru færðar í frumvarp með ákvæðum um að eignarhlutur einstakra aðila mætti ekki fara yfir fyrir fram ákveðin mörk. Það er að settar yrðu svokallaðar statískar reglur og gert var ráð fyrir að einstaklingur eða fyrirtæki og skyldir aðilar mættu ekki eiga meira en 25% eignarhlut í útvarpsstöð eða prentmiðli ef markaðshlutdeild færi yfir tiltekin mörk. Takmarkanir á eignarhaldi skyldu gilda um þær hljóðvarps- og sjónvarpsstöðvar og prentmiðla sem mældust með þriðjung í heildaráhorfi, heildarhlustun íslenskra dagskrárstöðva eða heildarlestri prentmiðla í að minnsta kosti þrjá mánuði samfleytt. Þá var kveðið á um að ef einstaklingur eða fyrirtæki og skyldir aðilar ættu fleiri en eina útvarpsstöð á sama markaði, þ.e. hljóðvarps- eða sjónvarpsmarkaði eða dagblaða- og prentmarkaði, skyldi leggja saman markaðshlutdeild viðkomandi miðla við matið, ættu þeir 10% eða meira í hverjum miðli.

Eignarhaldsnefndin hin nýja benti á tvö þýðingarmikil atriði við mat sitt á tillögum fjölmiðlanefndarinnar frá 2005. Eins og ég nefndi hér áðan eru það í fyrsta lagi þær eignatilfærslur sem hafa orðið á fjölmiðlamarkaði sem leiða til þess að landslagið er ekki hið sama nú og árið 2005, þó að ljóst sé að samþjöppun eignarhalds sé áfram viðvarandi vandamál á íslenskum fjölmiðlamarkaði. Í öðru lagi og ekki síður hefur þróunin orðið sú að vægi nýrri miðlunarleiða í fjölmiðlum hefur aukist hröðum skrefum. Ég nefndi hér áðan þátt netsins og netmiðlanna, en enn fremur má nefna hljóð- og myndmiðlun eftir pöntun. Tillögur fjölmiðlanefndarinnar gerðu hins vegar ráð fyrir því að eignarhaldstakmarkanir næðu einungis til hefðbundinna prentmiðla og ljósvakamiðla sem er auðvitað þröng nálgun miðað við fjölmiðlaumhverfi dagsins í dag. Það væri mjög erfitt að rökstyðja það nú að hefðbundnir miðlar, ef svo má að orði komast, ættu einir að sæta takmörkunum af þessum toga.

Miðað við aðferðafræði fjölmiðlanefndarinnar frá 2005 mundi ný nálgun við þetta viðfangsefni kalla á afmörkun að minnsta kosti sex ólíkra markaða fjölmiðlunar. Það er að segja hefðbundinna prentmiðla, rafrænna ritmiðla, ef við getum talað þannig um netmiðla, línulegrar myndmiðlunar, myndmiðlunar eftir pöntun, línulegrar hljóðmiðlunar og hljóðmiðlunar eftir pöntun. Tillögur fjölmiðlanefndarinnar gerðu þar að auki ráð fyrir því að eignarhald fjölmiðla á einstökum mörkuðum hefðu aðeins áhrif innan þeirra en ekki á aðra markaði fjölmiðla. Í ljósi þeirra breytinga sem hafa orðið á síðustu árum er álitamál hvort slík nálgun á við lengur. Einnig er ljóst að þær aðferðir sem lagðar eru til við mælingu markaðshlutdeildar eiga til að mynda ekki við um myndmiðlun eftir pöntun eða netmiðla.

Því ákvað eignarhaldsnefndin hin nýja að nálgast viðfangsefnið eftir öðrum leiðum eftir að hafa kortlagt þessar niðurstöður. Athuganir nefndarinnar leiddu í ljós að á sama hátt og víða erlendis einkennist fjölmiðlamarkaður hér á landi af verulegri samþjöppun á eignarhaldi. Ég tel að slík samþjöppun hljóti að vera áhyggjuefni fyrir almenning í ljósi þess að fjölmiðlar gegna mjög víðtæku hlutverki í lýðræðisþjóðfélagi. Gjarnan er talað um fjölmiðla sem fjórða valdið, bæði hér í þessum sal og annars staðar í opinberri umræðu í samfélaginu. Fjölmiðlar upplýsa, fræða og móta skoðanir almennings. Þeir skemmta almenningi, eru vettvangur fyrir auglýsingar og tilkynningar, eru farvegur fyrir skoðanir stjórnvalda, hagsmunahópa, almennings og eiga að vera suðupottur hinna ólíku skoðana og viðhorfa í samfélaginu. Fjölmiðlar hafa auk þess það mjög svo mikilvæga hlutverk að veita þeim sem fara með pólitískt og efnahagslegt vald á hverjum tíma aðhald og því er afar mikilvægt að tryggja fjölræði í fjölmiðlun að því leyti sem mögulegt er og þar með fjölbreytni í umfjöllun.

Eignarhaldsnefndin kortlagði einnig hvernig staðið er að eignarhaldsmálum fjölmiðla í nokkrum nágrannaríkjum okkar. Sú athugun leiddi meðal annars í ljós að það er nokkuð einróma mat sérfræðinga — og þetta er eitt af því sem við fjölluðum talsvert um síðast þegar við ræddum þetta mál — að úrræði hins hefðbundna samkeppnisréttar nægi ekki ein og sér til að sporna gegn neikvæðum áhrifum samþjöppunar á eignarhaldi fjölmiðla.

Nágrannaríki okkar hafa hins vegar farið mismunandi leiðir að þessu markmiði og má segja að löggjöf þeirra sé að einhverju leyti klæðskerasaumuð fyrir viðkomandi samfélög og markaði. Aðstæður eru auðvitað mjög mismunandi eftir ríkjum og við þekkjum, þó að við gægjumst ekki lengra en til nágranna okkar hér á Norðurlöndum, að þar er til að mynda stuðningur ríkisins við svæðisbundna fjölmiðla, hvernig markaður fyrir aðra fjölmiðla virkar og annað slíkt, með mjög mismunandi hætti. Aðstæður á milli ríkja þar eru mjög ólíkar.

Alls staðar gildir hins vegar að það eru reglur sem eiga að sporna gegn óhóflegri samþjöppun á eignarhaldi fjölmiðla eða til að sporna við þeirri samþjöppun sem þegar er til staðar, verði ekki einnig gengið of hart fram gagnvart þeim fyrirtækjum og einstaklingum sem starfa á fjölmiðlamarkaði. Reglur af þessum toga mega auðvitað heldur ekki hindra aðgengi nýrra aðila og því verður að feta hið vandrataða einstigi milli þess að ábyrgjast fjölræði og fjölbreytni í fjölmiðlun annars vegar og hins vegar þess að fjárfestar, einstaklingar og fyrirtæki sjái sér hag í því að fjárfesta á fjölmiðlamarkaði. Takmarkanir að þessu leyti gætu snúist upp í andhverfu sína og unnið þá gegn því markmiði að almenningur eigi aðgang að fjölbreyttum fjölmiðlum.

Það var samdóma álit eignarhaldsnefndarinnar að þörf væri á að festa í lög reglur sem sporna gegn óhóflegri samþjöppun eignarhalds á íslenskum fjölmiðlamarkaði eða fákeppni á háu stigi. Helsta álitaefni var í raun og veru hvort slíkar reglur ættu að vera bundnar við fyrir fram ákveðin mörk, þ.e. statískar eins og hér var nefnt áðan, eða hvort þær ættu að vera matskenndar og framkvæmd þeirra í megindráttum á hendi samkeppnisyfirvalda. Með tilliti til þess sem hér hefur verið sagt og annarra þátta, sem eru tilgreindir ítarlega í athugasemdum með frumvarpinu, er það niðurstaða nefndarinnar að setja beri reglur í formi matskenndra heimilda af samkeppnisréttarlegum toga fremur en statísk viðmið. Með hliðsjón af lögmætisreglunni verður þó að gæta að því að nægilega skýr rammi komi fram í lagatexta og það er ætlunin með þessu frumvarpi. Ljóst er að framkvæmd reglnanna verður að vera í samvinnu Samkeppniseftirlits og fjölmiðlanefndar, þó að hin endanlega framkvæmd verði á hendi Samkeppniseftirlits.

Þá leggur nefndin áherslu á að mat á grundvelli reglna af þessum toga geti eðli málsins samkvæmt aldrei orðið einsleitt heldur verði að líta til margra og að sumu leyti ólíkra þátta. Við mat á áhrifum samþjöppunar á eignarhaldi á fjölmiðlamarkaði á fjölræði og fjölbreytni í fjölmiðlun þarf því að taka mið af fleiri þáttum en þegar Samkeppniseftirlitið metur samkeppnisleg áhrif samruna eða samkeppnisaðstæður á einstökum mörkuðum.

Eftirfarandi þættir geta verið mögulegir áhrifavaldar þegar óæskileg áhrif samþjöppunar á eignarhaldi fjölmiðla eru rannsökuð. Taka ber mið af þegar slíkar reglur eru mótaðar til að sporna við slíkum áhrifum. Það eru til að mynda, ég tel þau atriði upp: Samruni sem fjölmiðlaveitur eiga aðild að, fjöldi eigenda, markaðsstaða eða efnahagsleg staða einstakra fjölmiðlaveitna, staða einstakra fjölmiðlaveitna til að koma málefnum á dagskrá og hafa skoðanamyndandi áhrif, samningar um kaup eða sölu á efni, samstarfssamningar, einkaréttarsamningar, hugverkaréttindi, samningar um sameiginlegar rannsóknir og dreifingarsamningar.

Þau ákvæði samkeppnislaga sem einkum koma til álita við mótun reglna til að koma í veg fyrir eða uppræta óhóflega samþjöppun á eignarhaldi fjölmiðla er í fyrsta lagi um eftirlit með samruna og í öðru lagi um heimildir til að grípa til aðgerða gegn aðstæðum sem koma í veg fyrir, takmarka eða raska samkeppni. Þá er átt við atriði sem tengjast eiginleikum viðkomandi markaðar, þar með talið skipulagi og uppbyggingu þeirra fyrirtækja sem á honum starfa.

Á grundvelli ákvæða samkeppnislaga kæmi samruni sem fjölmiðlaveitur eiga aðild að og uppfyllir skilyrði um fjárhagsleg umsvif eða veltu til athugunar Samkeppniseftirlitsins á sama hátt og samruni annarra fyrirtækja. Við rannsókn á slíkum samruna mundi Samkeppniseftirlitið meta hvort markaðsráðandi staða yrði til eða styrktist á grundvelli almennra samkeppnisréttarlegra mælikvarða og þar með grípa til íhlutunar ef með þyrfti á þeim grundvelli. Hins vegar ber Samkeppniseftirlitinu, að óbreyttum lagaramma, ekki skylda til að taka til athugunar sérstök fjölmiðlaréttarleg sjónarmið eða taka sérstakt mið af því hvort samruni hafi skaðleg áhrif á fjölræði eða fjölbreytni á viðkomandi fjölmiðlamörkuðum og getur einungis gripið til íhlutunar í samruna ef markaðsráðandi staða verður til eða styrkist eða samkeppni raskast að öðru leyti.

Það er mat eignarhaldsnefndarinnar að þetta dugi ekki vegna þess að fjölmiðlaréttarleg sjónarmið þurfa að skipa veigamikinn sess við mat á samfélagslega skaðlegum áhrifum samruna sem fjölmiðlaveita, ein eða fleiri, á aðild að. Þannig kunna viðmiðunarmörk um stöðu einstakra fyrirtækja og skaðlega samþjöppun að vera önnur þegar byggt er á fjölmiðlaréttarlegum sjónarmiðum en þegar byggt er á samkeppnisréttarlegum sjónarmiðum.

Að sama skapi telur nefndin þau sjónarmið sem ráða veltumörkum tilkynningarskyldu ekki eiga að öllu leyti við þegar tekið er mið af fjölmiðlaréttarlegum sjónarmiðum því að áhrif fjölmiðla á umræðu og á samfélag geta verið mikil þrátt fyrir takmörkuð efnahagsleg umsvif. Sá mælikvarði dugir því ekki einn og sér þegar metið er hvort samruni breytir fjölmiðlamarkaði. Þá eru það ekki bara krónur og aurar sem telja heldur áhrif fjölmiðilsins á þá umræðu sem á sér stað í samfélaginu og þar þurfa þessi fjölmiðlaréttarlegu sjónarmið að koma inn.

Til þess að ákvæði um eftirlit með samruna komi að gagni við að stemma stigu við skaðlegum áhrifum samþjöppunar á fjölmiðlamarkaði þarf að taka sérstakt mið af þessum atriðum og ákvæði frumvarpsins um samruna og eftirlit miðar að því. Á sama hátt og samruni yrði athugaður á grundvelli almennra reglna um eftirlit með samruna gæti komið til greina að grípa til aðgerða gegn aðstæðum sem skaða samkeppni á fjölmiðlamarkaði, til að mynda ef fjölmiðlaveita hefur yfirburðastöðu samkvæmt skilgreiningu samkeppnisréttar.

Þetta kann að virðast flókið en ég tel þó að þetta eigi að vera nokkuð skýrt því Samkeppniseftirlitið, eins og fyrr segir, hefur ekki heimild til að grípa til aðgerða gegn aðstæðum sem eru skaðlegar í fjölmiðlaréttarlegum skilningi nema þær séu einnig þess eðlis að þær komi í veg fyrir, takmarki eða raski samkeppni. Því var það mat eignarhaldsnefndarinnar að þetta almenna ákvæði væri ekki nægilegt og því miðar ákvæði frumvarpsins um eftirlit með fjölræði og fjölbreytni að því að veita Samkeppniseftirlitinu sérstaka heimild til að grípa til aðgerða gegn skaðlegum aðstæðum á þeim grundvelli. Þá er að sjálfsögðu gert ráð fyrir hlutverki fjölmiðlanefndar, að hún veiti Samkeppniseftirlitinu umsögn áður en ákvörðun er tekin og þar með er tryggt að sú sérþekking sem þar er til staðar um fjölmiðlamarkaði hér á landi nýtist Samkeppniseftirlitinu við matið. Þannig gegna þessar tvær stofnanir saman lykilhlutverki. Að sama skapi er gert ráð fyrir að fjölmiðlanefnd geti beint tilmælum til Samkeppniseftirlitsins um að grípa til aðgerða gegn skaðlegum aðstæðum á einstökum fjölmiðlamörkuðum.

Í stuttu máli sagt um þennan kafla sem er kannski stærsti kaflinn í frumvarpinu þá miða ákvæði þess að því að veita Samkeppniseftirlitinu auknar heimildir á grundvelli þessara fjölmiðlaréttarlegu sjónarmiða, sem ég vona að ég hafi gert grein fyrir. Þetta telur nefndin farsælustu leiðina til að ná þeim markmiðum sem að er stefnt. Til að því sé haldið til haga þá er markmiðið að tryggja fjölræði og fjölbreytni í fjölmiðlun almenningi til hagsbóta.

Svo bendir nefndin á, ágætt að því sé haldið til haga, að samkvæmt ákvæði til bráðabirgða nr. IV í fjölmiðlalögum frá árinu 2011 er gert ráð fyrir endurskoðun laganna innan þriggja ára frá setningu þeirra. Þannig að við getum gert ráð fyrir að ræða þetta á hverju ári, ef við erum heppin, nokkuð fram í tímann og þá verða auðvitað þessar mögulegu reglur um eignarhaldstakmarkanir þar á meðal.

Ég tel að þetta skýri nægilega vel þær tillögur sem hér eru lagðar fram um heimildir til þess að koma í veg fyrir eða sporna gegn óæskilegri samþjöppun á fjölmiðlamarkaði en það eru nokkrar aðrar breytingar sem hér eru lagðar til. Þær snúast, eins og ég hafði orð á í upphafi, fyrst og fremst um að bæta úr ákveðnum annmörkum sem hafa komið í ljós á framkvæmd laganna frá því að þau gengu í gildi. Ég ætla að gera nánar grein fyrir þeim. Lagðar eru til breytingar á hugtakinu ábyrgðarmaður. Reglur um ábyrgð eru einfaldaðar og gerðar skýrari í framkvæmd en samkvæmt gildandi lögum. Skýr greinarmunur er gerður á ábyrgð á því efni sem miðlað er og ábyrgð á öðrum þætti í rekstri viðkomandi fjölmiðils eða fjölmiðlaveitu, þá nefni ég ýmis ákvæði í IV.–VIII. kafla laganna.

Í öðru lagi er mælt fyrir um að fjölmiðlanefnd skuli öðlast heimild til að krefjast upplýsinga um raunverulegt eignarhald. Eins og hv. þingmenn rekur minni til þegar við samþykktum hér gildandi fjölmiðlalög 2011 þá er þar kveðið á um að eignarhald skuli upplýst. Ég held að þetta sé eitt af því sem allir hv. þingmenn hljóti að vera sammála um og skiptir máli í lýðræðissamfélagi, að fólk viti hver á fjölmiðlana sem miðla okkur upplýsingum. Hvorki í fjölmiðlalögunum né í lögskýringargögnum er kveðið á um það hvaða upplýsingar skulu veittar fjölmiðlanefnd um eignarhald. Samkvæmt gildandi fyrirkomulagi er talið að enginn vafi leiki á því að fjölmiðlanefnd geti á grundvelli ákvæða laganna krafist hlutaskrár einkahlutafélaga eða hlutafélaga og knúið á um afhendingu slíkra upplýsinga ef kröfunni er ekki sinnt.

Við ræddum þetta síðast þegar ég mælti fyrir þessu frumvarpi, því það er auðvitað ekki mjög gagnsætt fyrir almenning að eigandi fjölmiðils X heiti bara fyrirtæki Y en ekki komi fram hver eigi fyrirtækið Y og erfitt sé að nálgast þær upplýsingar.

Fjölmiðlanefnd skortir hins vegar viðhlítandi lagastoð til að unnt sé að knýja fjölmiðlaveitur sem neita að veita frekari upplýsingar um eignarhald en þær sem felast í hlutaskrá til að láta í té slíkar upplýsingar. Ef fjölmiðlaveita er félag sem er að öllu leyti í eigu annarra félaga og hún neitar að verða við ósk fjölmiðlanefndar um að veita nánari upplýsingar um hverjir eru eigendur þeirra, þá hefur fjölmiðlanefnd ekki heimild til að óska eftir þeim upplýsingum. Þá má segja að við séum ekki að ná fram þeim ákvæðum sem við viljum ná fram um gagnsæi eignarhalds.

Í þriðja lagi er lögð til breyting á g-lið 56. gr. laganna í þá veru að auka heimildir til að beita viðurlögum vegna brota á 27. gr. gildandi laga. Það er, ekki aðeins vegna hvatningar til refsiverðrar háttsemi eins og í gildandi lögum, heldur einnig vegna hatursáróðurs. Með ákvæðinu er áréttað að fjölmiðlum sé óheimilt að stuðla beinlínis að því með markvissum hætti að vekja andúð eða hatur í garð tiltekinna einstaklinga eða samfélagshópa á grundvelli þeirra atriða sem eru tilgreind í 2. mgr. 27. gr. Hér er um að ræða viðbót við íslenskan rétt. Ákvæðinu svipar að hluta til til ákvæðis um bann við hatursáróðri samkvæmt 233. gr. a, í almennum hegningarlögum frá 1940.

Markmiðið snýr beint að ábyrgð fjölmiðilsins og hvernig koma megi í veg fyrir að starfræktir séu fjölmiðlar sem hafa leynt eða ljóst að leiðarljósi að kynda undir hatri, úlfúð eða jafnvel ofbeldi gagnvart tilteknum hópum eða einstaklingum. Ákvæði 27. gr. fjölmiðlalaga er auk þess víðtækara en ákvæði almennra hegningarlaga því það nær til hatursáróðurs á grundvelli kynferðis og menningarlegrar, efnahagslegrar, félagslegrar og annarrar stöðu í samfélaginu. Annað markmið ákvæðisins er að fyrirbyggja að erlendir fjölmiðlar sem kynda undir hatri með markvissum hætti og sem ekki er vært í nágrannaríkjunum flytji starfsemi sína hingað til lands sökum þess að hér eru engin lagaúrræði til að sporna við henni. Í fjórða lagi er tillaga um breytt orðalag við 26. gr. laganna sem kveður á um lýðræðislegar grundvallarreglur. Í tillögunni er lögð áhersla á að í friðhelgi einkalífs felast mikilvæg mannréttindi sem ber að virða þegar fjallað er um viðkvæm mál í fjölmiðlum, nema þá að lýðræðishlutverk fjölmiðils og upplýsingaréttur almennings krefjist annars.

Þetta byggir auðvitað á mörgum stoðum sem er kannski ekki mikill tími eftir til þess að greina frá í þessari framsöguræðu, en ég reikna með að hv. allsherjar- og menntamálanefnd geti gefið sér tíma til að fara yfir þær. Kjarni málsins er sá að afar mikilvægt er að í fjölmiðlalögum sé fjallað um rétt einstaklinga til friðhelgi og einkalífsverndar gagnvart kröfu um birtingu efnis, með tilvísun til almannahagsmuna eða það sé í samræmi við lýðræðishlutverk fjölmiðla og upplýsingarétt almennings. Eins og ég nefndi áðan þarf þarna að feta ákveðið einstigi milli ólíkra sjónarmiða.

Ég tel rétt að nefna að í síðasta frumvarpi sem lagt var til var ákvæði um bann við birtingu skoðanakannana. Það byggði meðal annars á tillögum sendinefndar á vegum ÖSE sem kom hér til lands og setti fram það álit að mikilvægt væri að inn í íslenskan rétt yrðu sett einhver ákvæði um að fjölmiðlar settu sér reglur um aðgang stjórnmálahreyfinga að fjölmiðlum í aðdraganda kosninga sem og ákveðin ákvæði um aðgang ólíkra sjónarmiða til að mynda í aðdraganda þjóðaratkvæðagreiðslna. Nú er starfandi nefnd skipuð með svipuðum hætti, það er skipuð fulltrúum þeirra stjórnmálaflokka sem eiga sæti á Alþingi. Hún mun halda opið málþing um störf sín í næstu viku sem ég hvet hv. þingmenn til þess að mæta á ef þeir hafa tök á. Það er haldið daginn eftir að haldið er málþing um IMMI málið, sem er sömuleiðis í meðförum hjá mennta- og menningarmálaráðuneyti og snýr líka að fjölmiðlum og ákvæðum tjáningarfrelsis. Það verður því mikið um að vera fyrir áhugafólk um þessi málefni í næstu viku. Það var mín niðurstaða að taka þetta ákvæði út í því frumvarpi sem hér er lagt til og vísa málinu til talsvert ítarlegri skoðunar inn í þessa nefnd, sem væntanlega skilar af sér tillögu núna um miðjan febrúar.

Hæstv. forseti. Ég vona svo sannarlega að nú þegar málinu er vísað til löggjafans og til hv. allsherjar- og menntamálanefndar þá verði til lykta leitt mikilvægt mál sem er mitt mat að varði framkvæmd og viðgang lýðræðis í landinu. Þetta hefur verið efni mikilla átaka en að sama skapi ákveðin fyrirmynd sátta og samræðu sem getur leitt til málamiðlana sem allir geta sætt sig við. Ég vísa til starfs fjölmiðlanefndarinnar frá árinu 2005 sem komst að sameiginlegri niðurstöðu þó að þær niðurstöður hafi ekki náð að verða að lögum á þeim tíma. Ég vísa líka til eignarhaldsnefndarinnar sem einnig komst að sameiginlegri niðurstöðu og ég vonast til þess að það geti þar af leiðandi náðst góð sátt hér í þinginu um þær reglur sem lagðar eru til.

Að því mæltu legg ég til að frumvarpinu verði vísað til hv. allsherjar- og menntamálanefndar að lokinni 1. umr.