141. löggjafarþing — 67. fundur,  17. jan. 2013.

fjölmiðlar.

490. mál
[14:07]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (Hr) (andsvar):

Forseti. Mig langar að byrja á því að þakka hæstv. menntamálaráðherra fyrir að hafa staðið mjög góðan vörð um þau gildi sem mikið var kallað eftir hér eftir hrun, þau gildi sem lúta að gagnsæi. Hérna erum við einmitt að taka fyrir lög sem eru mjög mikilvæg varðandi eignarhald á fjölmiðlum og óeðlilega samþjöppun þar á bæjum. Ég ætlaði að spyrja einmitt sömu spurningar og hv. þingmaður spurði hér á undan um þau áhrif sem þetta mundi hafa á fjölmiðlamarkaðinn í dag. Maður getur ekki séð inn í framtíðina hvernig það mun gerast en vonandi verður þetta til þess að við höfum aðeins heilbrigðara fjölmiðlaumhverfi.

Mig langaði aftur á móti að spyrja hver það verður sem mun leggja mat á hvaða hagsmunir vegi þyngra, almannahagsmunir eða einkahagsmunir. Er það fjölmiðlanefnd eða hverjir munu leggja mat á það? Þetta er náttúrlega afar erfiður stígur að feta. Jafnframt erum við að koma með nýja skilgreiningu á hatursáróðri. Það er líka mjög erfið slóð að feta út af því að það hlýtur alltaf að vera menningarlegt á hverjum tíma hvar sú lína liggur. En hverjir munu leggja mat á það?