141. löggjafarþing — 67. fundur,  17. jan. 2013.

fjölmiðlar.

490. mál
[14:16]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni ábendingarnar. Að sjálfsögðu má segja að við erum að feta nýja slóð ef við samþykkjum frumvarpið og leggjum af stað í þann leiðangur að fela Samkeppniseftirlitinu og fjölmiðlanefnd þessar matskenndu heimildir. Það er sannfæring mín eftir að hafa lesið skýrslu nefndarinnar að þetta sé skilvirkari leið en að setja hin statísku viðmið, sem ég var raunar sammála þegar þau voru sett fram á sínum tíma. Ég fellst á þau rök sem þarna eru sett fram, að markaðurinn hafi breyst að því leyti að þau eigi að einhverju leyti ekki við lengur. Hins vegar er ljóst að þetta verður auðvitað mikill prófsteinn á það að faglegum ferlum sé fylgt. Þess vegna fannst mér mjög mikilvægt að fjölmiðlanefnd væri aðili að þessu, því að eins og ég sagði áðan eru það ekki einföld efnahagsleg samkeppnissjónarmið, sem við getum sagt að eigi við um matvöruverslun, sem eiga við þegar kemur að rekstri fjölmiðla sem hafa allt annars konar hlutverki að gegna. Það er kannski stóra málið, bæði þegar við ræðum þessa löggjöf og þegar við ræðum fjölmiðla almennt, það er að við viðurkennum þá gríðarlega mikilvægu stöðu sem fjölmiðlar hafa og eiga að hafa í samfélagi okkar sem upplýsingaveitur, sem gagnrýnendur og sem sá aðili sem veitir samfélaginu öllu aðhald á einhverjum sviðum.

Ég held hins vegar eins og hv. þingmaður nefnir réttilega — ætlunin er að endurskoða ákvæði þessara laga innan tiltekins tíma. Ef þetta verður samþykkt nú verður væntanlega komin einhver reynsla á þau ákvæði. Ég tel að það sé mjög mikilvægt. Þetta er svo stórt mál að ég tel það algjört grundvallaratriði að þingið sinni því í framtíðinni með mjög reglubundnum hætti og fylgist vel með hvernig framkvæmd laganna mun gefast, því að þarna verðum við að treysta og beita okkur til þess að ferlið geti orðið sem faglegast.