141. löggjafarþing — 67. fundur,  17. jan. 2013.

fjölmiðlar.

490. mál
[14:33]
Horfa

Siv Friðleifsdóttir (F):

Virðulegur forseti. Við ræðum frumvarp sem við höfum fengið áður inn í þingið, eins og hér hefur komið fram, og til allsherjar- og menntamálanefndar. Það er að vísu í aðeins breyttu formi að þessu sinni þar sem meðal annars er búið að taka tillit til þeirra athugasemda sem komu fram í allsherjar- og menntamálanefnd þegar við tókum frumvarpið síðast fyrir þar. Mig langar að tipla á nokkrum atriðum varðandi þetta mál og ég hlakka til að takast á við það að nýju í allsherjar- og menntamálanefnd.

Ég heyrði á tal formanns nefndarinnar, hv. þm. Björgvins G. Sigurðssonar, og hæstv. menntamálaráðherra í andsvörum. Eitt af atriðunum í frumvarpinu gengur einmitt út á það hvenær skilyrði séu til að brjóta upp fjölmiðlaveitu til þess að tryggja að ekki verði of mikil samþjöppun á markaði þannig að ekki sé bara einn, einn og hálfur eða tveir fjölmiðlar á markaði eða til staðar og þar af leiðandi einokunarstaða hjá hinu mikilvæga svokallaða fjórða valdi. Ég heyrði í andsvörunum að hæstv. menntamálaráðherra Katrín Jakobsdóttir vék sér undan því að svara hvernig hún sæi þau skilyrði fyrir sér og beindi því til annarra fagaðila sem ættu að þekkja þau mál betur. Það er eiginlega aðalatriðið hvenær þau skilyrði eru fyrir hendi að við horfum upp á of mikla fákeppni á fjölmiðlamarkaði. Svarið við því liggur ekkert í augum uppi. Ég hafði talið mjög æskilegt að þingið væri með einhver leiðbeinandi sjónarmið í því sambandi og að við afsöluðum því mati ekki algjörlega í hendur Samkeppniseftirlitsins og fjölmiðlanefndar. Þetta er sjálfsagt nokkuð sem við verðum að skoða frekar í nefndinni og átta okkur á því hvort við getum gefið einhver frekari viðmið. Ég tek því undir það með hv. formanni nefndarinnar að þetta er talsvert grundvallaratriði í frumvarpinu.

Það eru fjölmörg atriði hérna sem er vert að minnast aðeins á. Mér finnst athyglisvert að skoða hvernig þetta frumvarp varð til. Hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra skipaði nefnd í apríl 2011. Það kemur fram í athugasemdum með frumvarpinu að fulltrúar frá stjórnmálaflokkunum sátu meðal annarra í þeirri nefnd. Þarna var Karl Axelsson, hæstaréttarlögmaður og dósent, hann var formaður nefndarinnar, Elfa Ýr Gylfadóttir, sérfræðingur í mennta- og menningarmálaráðuneytinu og nú framkvæmdastjóri fjölmiðlanefndar, Björn Þorláksson, blaðamaður og rithöfundur, var tilnefndur frá Vinstri hreyfingunni – grænu framboði, Einar Már Sigurðarson skólastjóri var tilnefndur af Samfylkingunni, Svanhildur Hólm Valsdóttir framkvæmdastjóri var tilnefnd af Sjálfstæðisflokknum, Salvör Gissurardóttir lektor var tilnefnd af Framsóknarflokknum og Baldvin Björgvinsson, raffræðingur og kennari, var tilnefndur af Hreyfingunni. Það var nokkuð öflugt lið sem fundaði og undirbjó þetta frumvarp.

Ég tel margt gott í þessu frumvarpi þannig að ég ætla að leyfa mér að vera frekar jákvæð, alla vega við 1. umr. varðandi afdrif málsins þó að ég telji reyndar að greinarnar um samþjöppun á fjölmiðlamarkaði séu mjög umhugsunarverðar því að þær eru svo óljósar. Þær eru reyndar mjög tæknilega flóknar líka. Ég hef velt þessu fyrir mér. Þetta eru greinar á bls. 4 og 5 í frumvarpinu, sérstaklega b-liður 17. gr. (62. gr. b.), Samrunaeftirlit, en hún er gríðarlega löng og tekur eiginlega heila blaðsíðu í skjalinu. Greinin er einnig tæknilega flókin. Ég velti fyrir mér fyrir okkur sem erum í allsherjar- og menntamálanefnd og fjöllum ekki dagsdaglega um eignarhald á fyrirtækjum almennt, samruna fyrirtækja o.s.frv. hvort við þurfum ekki að fá alveg sérstaka leiðsögn frá öðrum eða annarri fagnefnd þingsins í því sambandi. Ég nefni efnahags- og viðskiptanefnd. Mér finnst það koma vel til greina þó ekki nema vegna orðalagsins sem er svo tæknilegt að það er varla að maður átti sig á öllum mögulegum klækjabrögðum sem fyrirtæki geta viðhaft til að ná til sín valdi með eignarhaldi.

Það er hægt að grípa hérna niður í miðja þessa grein um samrunaeftirlit þar sem b-liðurinn kemur fyrir í þriðja skipti. Þar er verið að tala um að aðilar öðlist yfirráð og í b-liðnum „þrátt fyrir að vera ekki handhafar slíks réttar eða eiga ekki tilkall til réttar samkvæmt slíkum samningum hafa möguleika til að beita slíkum réttindum.“ Þetta er hálfgerð kínverska verð ég að viðurkenna, alla vega fyrir þá er hér stendur sem er ekki dagsdaglega að velta fyrir sér hvaða klækjabrögðum sé hægt að beita til að ná valdi yfir fyrirtækjum eins og með alls kyns samruna, dótturfélögum og dótturdótturfélögum o.s.frv.

Það hefur líka verið talað um hlutverk RÚV. Ég vil draga það fram að mínu áliti er hlutverk Ríkisútvarpsins alveg gríðarlega mikið í íslensku samfélagi. Framsóknarflokkurinn hefur reyndar ályktað sérstaklega um það, ekki bara einu sinni heldur oftar, einnig á síðasta flokksþingi. Á flokksþingi Framsóknarflokksins var ályktað í þessa veru, ég ætla að leyfa mér að lesa það, með leyfi forseta:

„Fjölmiðlar eru mikilvæg upplýsingaveita almennings í lýðræðislegu samfélagi. Auka þarf gagnsæi um útbreidda fjölmiðla þannig að eignarhald sé skýrt og til að koma í veg fyrir samþjöppun. Ríkisútvarpið gegnir mikilvægu hlutverki í íslensku samfélagi og á því hvílir rík skylda að þjóna öllu landinu. Útvarpsgjaldið verður að renna óskipt til RÚV. Stefnt skal að því að auka hlutdeild norræns dagskrárefnis í Ríkissjónvarpinu þegar samningur við RÚV verður næst endurnýjaður en það er nú 7,5%.“

Hérna er verið að undirstrika frá hendi Framsóknarflokksins hvað RÚV gegnir miklu hlutverki í íslensku samfélagi og að koma eigi í veg fyrir samþjöppun. Það stangast að sumu leyti á, mundu margir kannski segja, að við viljum mjög sterkt RÚV en alls ekki einokun eða mikla samþjöppun. Það er að minnsta kosti ljóst að okkar skoðun er sú að RÚV gegni ótrúlega miklu hlutverki.

Ríkisútvarpi hefur reyndar talsvert aðhald vegna sérstöðu sinnar. Fólk lítur á RÚV sem mikilvæga stofnun, almannaeign, og gerir miklar kröfur og meiri kröfur til RÚV og fréttaflutnings þar og dagskrárefnis en til fjölmiðla almennt að mínu mati. Það heyrast ramakvein ef fólk telur að RÚV fari út fyrir hlutverk sitt með misnotkun á valdi, gerist sekt um pólitíska flokkadrætti eða eitthvað svoleiðis. RÚV er vissulega undir nokkurs konar smásjá hjá almenningi.

Í umræðunni áðan var holl upprifjun á flokkspólitískum fjölmiðlum, dagblöðum sérstaklega. Ég hef verið á þinginu í 18 ár þannig að ég man tímana tvenna. Það eimir auðvitað enn af þessu. Á sínum tíma voru mjög harðdræg flokksblöð hér á landi, Alþýðublaðið og Tíminn og Morgunblaðið, og þessi blöð (Gripið fram í: Og Þjóðviljinn.) gengu — já, og Þjóðviljinn, það eru fleiri sem játa syndir sínar hérna. Þessi blöð gengu nokkuð massíft erinda stjórnmálaflokkanna og ekki bara flokkanna heldur hagsmunaaðila líka, hagsmunablokka. Þar sem peningar eru þar er vald. Þarf að segja mikið meira? Það gat verið ansi skemmtilegt að stúdera þetta. Það var ekki flókið að sjá að ef ljósmyndir birtust af flokkspólitískum andstæðingum viðkomandi blaðs þá voru þær ljótar, viðkomandi var mjög ljótur í framan, myndirnar voru teknar við óheppilegar aðstæður o.s.frv. og voru hiklaust birtar af andstæðingunum en gríðarlega fallegar, flottar, glansandi og skínandi myndir voru birtar af þeim sem voru þóknanlegir. Maður var ekki lengi að átta sig á því, þó svo að maður hefði varla verið læs, hvað þarna var á ferðinni. Það gengu líka miklar tröllasögur af því, man ég, þegar einhver lak frétt í fjölmiðla af einhverjum flokki því að þá mátti stúdera blaðið alveg í kjölinn og finna lekann vegna þess að viðkomandi var þakkað fyrir með því að birta mynd af honum annars staðar í blaðinu. Þannig var hægt að stúdera og lesa sig áfram og finna lekann. Það lá við að þetta væri eins konar finndu-örkina-hans-Nóa-leikur. Þetta var því miklu augljósara hér áður fyrr.

Að einhverju leyti á þetta við enn. Það þarf ekkert að nefna einhverja sérstaka fjölmiðla, það vita allir við hvað ég á. Það eru miklir hagsmunir á ferðinni og það endurspeglast að vissu leyti í því valdi sem fjölmiðlar hafa.

Ég vil þó nefna eitt dæmi af því að það er ekki beint flokkspólitískt, held ég. Það eru auglýsingar á áfengi. Ég held að það sé ekkert rosalega flokkspólitískt mál þó að Sjálfstæðisflokkurinn telji að almennt eigi að auka frelsi til auglýsinga á áfengi í fjölmiðlum. Ég er algjörlega á móti því, tek það fram hér. Það að auglýsa áfengi í fjölmiðlum þýðir auðvitað að það eru fjárhagslegir hagsmunir fjölmiðils að auglýsa hvað sem er, líka áfengi. Það eru miklir peningar á ferðinni þar. Auglýsingar á áfengi gefa fjölmiðli mikið í aðra hönd. Það endurspeglast að mínu mati svolítið í framkomu fjölmiðla í því máli. Við sáum til dæmis ekki fyrir svo löngu í einu dagblaðanna röksemdafærslu frá háttsettum aðila innan þess blaðs fyrir því að breyta ætti lögum þannig að hægt væri að auglýsa áfengi massíft — massíft er mitt orðalag, það stóð ekki í þessari umfjöllun. Ég skil alveg þetta viðhorf sitjandi í þeirri stöðu að vilja fá fjármagn til fjölmiðilsins. Ég skil ég alveg viðhorfið að vilja bara breyta lögum hérna og auglýsa áfengi. Þó að lögin sé þannig í dag að ekki megi auglýsa áfengi og auglýsingar á áfengi sé sniðganga á lögum.

Ég vil líka nefna í þessu sambandi annan miðil, sjónvarpsmiðilinn. Fram hefur komið úr þessum stól áður hvaða miðill það er, sjálft Ríkisútvarpið. Ríkisútvarpið auglýsti að mínu mati áfengi þegar James Bond-myndin Skyfall var auglýst. Þarna var James Bond mættur í mjög spennandi auglýsingu. Hún höfðar til ungs fólks. Það er verið að frumsýna þessa mynd. Í lokin kom Heineken-risaauglýsing, svo stóð „léttöl“ undir með örsmáu letri. Það fór ekkert fram hjá neinum að verið var að auglýsa áfengi þarna. Reyndar hafði ég fyrir því að láta hringja í innflutningsaðilann og spyrja hvar væri hægt að fá þetta léttöl sem var auglýst. Var það hægt? Nei, það var ekki til á markaðnum. Það hafði ekki verið til það árið á markaðnum, það var ekki hægt að fá það. Samt var það auglýst, en það var hægt að kaupa áfenga drykkinn, hann var alls staðar til sölu í ríkinu. Þetta sýnir fjárhagslega hagsmuni fjölmiðla og endurspeglar vald þeirra.

Ég ætlaði líka að tala aðeins um þær breytingar sem koma fram hjá bæði hæstv. ráðherra og hv. formanni nefndarinnar, en ég samt ekki fara djúpt í þær. Þarna er verið að taka á hinu svokallaða hatursákvæði og er búið að færa það í annað form. Það er bæði í 3. gr. og 9. gr. frumvarpsins. Þetta er svolítið sérstakt, maður er ekkert alltaf að fjalla um orðið hatur í ræðustól Alþingis. Þetta er gríðarlega sterkt og ógnvekjandi orð. Það er mjög hollt fyrir okkur í nefndinni að fara svolítið í gegnum það hvaða bönd við eigum að setja á fjölmiðla varðandi það að kynda undir hatri á grundvelli alls konar atriða, kynferðis, trúarbragða, kynþátta, þjóðernis o.s.frv.

Ég sé að tími minn er að lokum kominn, en ég vildi undirstrika 8. gr. Þar eru gerðar kröfur til fjölmiðlaveitu um að virða friðhelgi einkalífsins. Mér finnst það mikilvægt atriði sem við skulum skoða betur í nefndinni (Forseti hringir.) því að fjölmiðlaumræðan hefur verið gríðarlega óvægin á síðustu árum gagnvart einkalífi margra, sérstaklega þeirra sem tengjast hruninu. Þótt margir (Forseti hringir.) hafi gert ýmislegt af sér eiga þeir ekki að sitja undir hverju sem er frá fjölmiðlum (Forseti hringir.) í því sambandi.