141. löggjafarþing — 67. fundur,  17. jan. 2013.

fjölmiðlar.

490. mál
[14:49]
Horfa

Björgvin G. Sigurðsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég get tekið undir það sem fram kom í fínni ræðu hjá hv. þingmanni, einnig það sem varðar áfengisauglýsingarnar sem fjallað er um í öðru frumvarpi sem er til meðferðar í nefndinni sem við sitjum bæði í. Þar finnst mér leiðarljósið ákaflega skýrt; annaðhvort eru áfengisauglýsingarnar leyfðar eða þær eru bannaðar. Í dag eru þær bannaðar. Verið er að sniðganga lögin. Nefndin miðar því að því núna að taka á því og koma í veg fyrir að lögin séu sniðgengin því að annaðhvort er þetta bannað eða leyft. Núverandi ástand er til lítillækkunar fyrir löggjafann og alla aðila og engum til sóma.

Ég tek undir með hv. þingmanni um að öflugt ríkisútvarp sé mikilvægt og nauðsynlegt á fjölmiðlamarkaði. Um það held ég að sé nokkuð þverpólitísk samstaða sem betur fer þótt menn greini á kannski um einhver blæbrigði.

Hitt sem ég vildi sérstaklega nefna er meginatriði frumvarpsins og lýtur að eignarhaldinu, þ.e. hvaða aðstæður teljast skaðlegar á þeim grundvelli þannig að fjölmiðlaréttarleg sjónarmið réttlæti að samkeppniseftirlitið beiti ákvæði um eignarhaldstakmörkun. Gætu þær aðstæður skapast að við sætum frammi fyrir því að hér væri eitt öflugt ríkisútvarp um langa framtíð og svo væri samþjöppunin á einkamarkaði þannig að hér væri eins konar ljósvakasamsteypa, ég orða það þannig, sem væri með sjónvarpsstöðvarnar og útvarpsstöðvarnar af því að örmarkaðurinn gerði það að verkum að við værum alltaf með fákeppnisástand? Það er bara spurning um hversu langt má ganga til að Samkeppniseftirlitið beiti þeim heimildum sem hér er lagt til að það hafi að fengnu áliti frá fjölmiðlanefnd, þ.e. að það hafi áhrif á eignarhaldið með því að sprengja það upp.