141. löggjafarþing — 67. fundur,  17. jan. 2013.

fjölmiðlar.

490. mál
[14:51]
Horfa

Siv Friðleifsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég tel að það væri mjög æskilegt að hér væru alla vega tveir á markaðnum sem flokkast gætu undir það að vera stórir og sterkir, helst fleiri, en alla vega tveir. Annað finnst mér að hljóti að falla undir einokun og óeðlilega fákeppni. Við munum fara yfir það í nefndinni en ég treysti mér þó til að segja þetta. Það er meira en hæstv. ráðherra treysti sér til að segja. Hún vísaði því algjörlega frá sér að skilgreina það.

Ég vil taka undir með hv. formanni nefndarinnar varðandi áfengisauglýsingarnar, það er auðvitað mikil hneisa að við skulum ekki vera búin að klára það mál í þinginu. Ég er eiginlega alveg viss um að það er meiri hluti fyrir því máli í þinginu. Það er bara með þetta mál eins og fleiri, það kom í þingið á blússandi ferð á síðasta þingi og dó drottni sínum í málþófi. Það er ekki nýtt fyrirbæri. Það hefur gerst á hverju einasta ári svo lengi sem ég hef verið á þessum vinnustað. Það minnir mig enn og aftur á það mál sem ég hef flutt hér og veit að verður samþykkt einhvern tímann í framtíðinni, þ.e. að breyta þingsköpum. Þá verð ég því miður ekki hér en ég mun fagna gríðarlega þegar það verður gert. Það verður að breyta þingsköpum. Það verður að breyta þingsköpum þannig að málþóf heyri sögunni til. Það drepur niður góð mál vegna þess að ef einhver einn flokkur eða jafnvel bara hluti af einum flokki er andsnúinn því er hægt að haka við það mál og ýta því út af borðinu þó að það sé gott og heyri til framfara. Það þarf að taka á því.

Vegna áfengisauglýsinganna vil ég minna á að Norðurlandaráð samþykkti í atkvæðagreiðslu — það þurfti atkvæðagreiðslu til að sýna hvað áfengismálin og tóbaksmálin eru viðkvæm. Það var eina atkvæðagreiðslan sem fór fram á síðasta Norðurlandaráðsþingi, það var einmitt um áfengismál, þar á meðal um auglýsingar. Norðurlandaráð vill ekki að áfengi sé auglýst gagnvart ungu fólki.