141. löggjafarþing — 67. fundur,  17. jan. 2013.

fjölmiðlar.

490. mál
[14:56]
Horfa

Siv Friðleifsdóttir (F) (andsvar):

Frú forseti. Varðandi hatursákvæðið tel ég að þessi útgáfa sé betri en sú síðasta, að hún sé til framfara. Reyndar hefur hv. þm. Eygló Harðardóttir skoða það mál sérstaklega fyrir hönd okkar framsóknarmanna og verið í samráði við fleiri aðila varðandi m.a. þá útgáfu sem liggur hér til grundvallar. Ég tel að þetta sé líklegra til samstöðu en fyrri útgáfa, en ég ætla ekki að kveða upp úr um að það renni hér í gegn eins og ekkert sé. Við þurfum bara að skoða það betur í nefndinni en ég tel að þessi útgáfa sé alla vega til bóta.

Varðandi þær aðstæður sem kalla á það að við brjótum upp þá fjölmiðlaveitu sem myndast hefur ef of mikil fákeppni er orðin á markaði endurtek ég það sem ég sagði áðan; ég tel að það þurfi að vera a.m.k. tveir sterkir aðilar á markaði, annað sé einokun, og helst fleiri en tveir. En ég geri mér grein fyrir því að í þessari smæð, í þessu 300 þús. manna samfélagi er líklega útópía að halda að margir jafnsterkir aðilar verði á markaði.

Hv. þingmaður kom inn á erlenda fjölmiðla, að fólk væri líka farið að fylgjast með erlendum fjölmiðlum. Margir héldu að þegar erlendir fjölmiðlar kæmu inn á markaðinn færi samkeppnin í alþjóðavæðingu, út um allan heim, að við þyrftum að hafa minni áhyggjur af fákeppni á markaði hér á landi. Ég held að það sé ekki þannig. Ég held að Íslendingar muni alltaf horfa á íslenska fjölmiðla og fylgjast t.d. með íslenskum fréttum í íslenskum fjölmiðlum og líka öðru dagskrárefni bara af því að það viðheldur samheldni samfélags. Fólk vill vera hluti af heild, það vill geta talað við vini og vandamenn um eitthvað sem það sá í sjónvarpinu og deila þeirri reynslu. Ég held því að við þurfum alltaf að hafa áhyggjur af fákeppninni í okkar eigin landi.