141. löggjafarþing — 67. fundur,  17. jan. 2013.

fjölmiðlar.

490. mál
[15:14]
Horfa

Björgvin G. Sigurðsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir afskaplega góða og málefnalega ræðu. Það var margt sem hún kom inn á og hún þekkir gjörla til sem fyrrverandi menntamálaráðherra, nauðaþekkir málið og mikilvægi þess að slík löggjöf sé vel úr garði gerð. Ég tek undir eiginlega öll aðalatriði sem komu fram í máli þingmannsins.

Það skiptir miklu máli að skapa ramma utan um eignarhaldið sem er þokkaleg sátt um og mig langar að spyrja hv. þingmann hvort hún telji að með þeim ramma sem hér er settur upp, og ég held að sé skynsamlegur, fetum við okkur í áttina að hinu endanlega fyrirkomulagi og hvernig best er að ná utan um eignarhald fjölmiðla.

Hér er lagt til að Samkeppniseftirlitið fái rýmri heimildir á fjölmiðlaréttarlegum forsendum til að grípa inn í skaðlegar aðstæður á þeim grundvelli, eins og þar stendur. Eftirlitið fær þessar auknu heimildir í samspili við fjölmiðlanefnd. Ég tek undir að það tilheyrir því að búa í siðuðu samfélagi að hafa takmarkanir á því í lögum hvað fjölmiðlar á ritstjórnarlegum forsendum geta haldið úti af því sem kallast hatursáróður, þó að auðvitað sé erfitt að ná utan um hvar það tekur nákvæmlega niður. Það tekur auðvitað til ofsafenginna ummæla í ummælakerfum fjölmiðlanna sem eru að einhverju leyti eða öllu á ábyrgð ritstjórnar þó að þau sé ekki sögð af þeim.

Við fjöllum hér um mikil álitaefni, en sérstaklega vildi ég ræða um eignarhaldsþáttinn. Það má segja að röð mistaka á sínum tíma hafi orðið til þess að ekki náðist samstaða um eignarhaldslög um fjölmiðlana fyrir níu árum. Nú er verið að leggja það fram með þessum hætti og ég vildi spyrja hv. þingmann hvort hún telji að frumvarpið sé (Forseti hringir.) skref eða stórt skref í þá átt að ná utan um þetta og byggja upp þennan ramma.