141. löggjafarþing — 67. fundur,  17. jan. 2013.

fjölmiðlar.

490. mál
[15:16]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég ætla að leyfa mér að vera bjartsýn og segja já, ég bind ákveðnar vonir við að þetta sé rammi sem við getum sameinast um. Mér finnst skipta máli að í þessu ferli er reynt að ná þverpólitískri samstöðu. Við sjálfstæðismenn tilnefndum okkar fulltrúa, fulltrúa sem hefur gríðarlega mikla reynslu af rekstri fjölmiðla og þekkir líka til hins pólitíska umhverfis. Að öllu jöfnu ætla ég ekki að gerast meiri spekingur á sviði en fulltrúi okkar sjálfstæðismanna í þeirri nefnd, þó að ég hafi ágætisreynslu úr fjölmiðlum og úr ráðuneyti og héðan af þingi, en að auki mynda ég mér mína sjálfstæðu skoðun á frumvarpinu. Ég tel, í ljósi breytts umhverfis, að það geti vel verið mikil skynsemi í því fólgin og við eigum að fara vel yfir þetta frumvarp.

Það sem ég þarf hins vegar að fá nánari útskýringar á er hlutverk Samkeppniseftirlitsins og hvernig það sjálft telur sig koma að því t.d. að brjóta upp fjölmiðla. Hvaða skilyrði þurfa að liggja fyrir, svo við tökum bara praktískt dæmi úr veruleikanum, þannig að Samkeppniseftirlitið fari í jafnumfangsmikla aðgerð og það að stokka upp og brjóta upp fjölmiðla?

Þess vegna skiptir máli að draga líka Ríkisútvarpið inn í þetta, og spyrja hvort Samkeppniseftirlitið hafi hugsanlega einhverjar skoðanir á Ríkisútvarpinu, sérstaklega þeim hluta sem tilheyrir samkeppnismarkaðnum, sem eru meðal annars auglýsingar og hugsanlega annað efni innan Ríkisútvarpsins. Mér finnst þetta fýsileg leið og mér finnst hún þess eðlis að okkur ber skylda til að fara vel yfir frumvarpið, ekki síst í ljósi umræðu undangenginna ára, hún hefur staðið yfir í nær áratug, (Forseti hringir.) um fjölmiðla. Ég tel okkur hafa hér tækifæri að minnsta kosti til að ná skynsamlegum fleti í málinu.