141. löggjafarþing — 67. fundur,  17. jan. 2013.

fjölmiðlar.

490. mál
[15:20]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S) (andsvar):

Frú forseti. Já, það er ekki spurning. Þó að manni finnist þetta ekki vera stórt skref, eins og ég gat um áðan, sem verið er að stíga varðandi Ríkisútvarpið held ég að það sé tvímælalaust rétt skref. Við þurfum að ígrunda vel hvort hægt er að taka stærra skref. Annað sem tengist þessu líka er hvaða kröfur ráðherra gerir hverju sinni í gegnum þjónustusamninginn. Þar er hægt að beita sér miklu meira og við höfum ekki gert það nægilega vel í gegnum tíðina enda er það kannski svolítið nýtt tæki sem við erum að þróa. Ég held þó að nægilega mikil þekking hafi byggst upp í ráðuneyti menntamála og menningarmála í samvinnu við fjölmiðlanefnd til að geta lagt skýrar skyldur á herðar Ríkisútvarpinu og gert mjög skýrar kröfur til þess umfram það sem við gerum í dag, m.a. til að auka fjölbreytni og fjölræði á markaði sem ég tel vera eitt af meginmarkmiðum þessa frumvarps.

Við verðum að horfast í augu við að það er líka á ábyrgð okkar stjórnmálamanna að tryggja að hér ríki ákveðin fjölbreytni á fjölmiðlamarkaði. Hluti af því að tryggja fjölbreytni er að byggja upp sæmilegan auglýsingamarkað fyrir einkaaðila á markaði.

Varðandi Samkeppniseftirlitið finnst mér vera pínulítill lapsus í frumvarpinu, það er ekki nægilega skýrt kveðið á um hversu mikið það kostar að koma upp starfsmanni eða hvort starfsmaður verður yfirhöfuð settur í þetta. Það má ekki vera þannig að við séum nokkuð sátt með ákveðinn ramma sem við teljum tryggja ákveðnar leikreglur á fjölmiðlamarkaði, við séum búin að koma okkur upp slökkvitæki sem við erum tiltölulega sátt með en síðan, þegar á hólminn er komið, er ekkert slökkviefni í slökkvitækinu. Þetta er nokkuð sem ég held að við í nefndinni munum fara gaumgæfilega yfir með Samkeppniseftirlitinu og sjá hvort þetta sé tæk leið til að viðhalda fjölbreytni og samkeppni á fjölmiðlamarkaði.