141. löggjafarþing — 67. fundur,  17. jan. 2013.

skýrsla Ríkisendurskoðunar um endurskoðun ríkisreiknings 2010.

505. mál
[16:06]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég ætla að byrja á því að fagna áliti fjárlaganefndar um skýrslu Ríkisendurskoðunar um endurskoðun ríkisreiknings. Ég fagna líka skýrslu Ríkisendurskoðunar og þakka hv. þm. Ásbirni Óttarssyni fyrir mjög ítarlega yfirferð.

Það er útilokað að spyrja út í einstök atriði, en hann gat hér síðast um A-deild Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins sem hefur verið mér sérstakt áhugaefni vegna þess að í lögum stóð að stjórn sjóðsins ætti að leggja til hækkun á iðgjaldi ef eignir dygðu ekki fyrir skuldbindingum. Þetta var svo tekið til baka með lagasetningu frá Alþingi og þessi skuldbinding var eftir mínu minni 57 milljarðar á síðasta ári og hafði vaxið um 10 milljarða á einu ári. Annaðhvort þarf ríkið að hækka iðgjaldið hjá opinberum starfsmönnum um 4%, sem eru um það bil 4 milljarðar á ári hverju, eða greiða þessa upphæð inn í sjóðinn.

Ég vil spyrja hv. þingmann þar sem hann skrifaði undir þetta án fyrirvara: Er hann sáttur við þá niðurstöðu að ekkert hafi verið gert?