141. löggjafarþing — 67. fundur,  17. jan. 2013.

skýrsla Ríkisendurskoðunar um endurskoðun ríkisreiknings 2010.

505. mál
[16:14]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Við ræðum álit fjárlaganefndar um skýrslu Ríkisendurskoðunar um endurskoðun ríkisreiknings árið 2010. Áhugi hv. þingmanna er ekki mikill á því máli, það verður að segjast eins og er. Það er eiginlega enginn áhugi á því. Menn hafa miklu meiri áhuga á að ausa út peningum og eyða þeim en að horfast í augu við vandann sem til staðar er.

Þessi skýrsla er mjög góð, álit fjárlaganefndar er mjög gott. Það er mjög þörf lesning og eiginlega ættu allir þingmenn að lesa það á kvöldin áður en þeir fara að sofa — þeir ættu kannski að gera það frekar á morgnana því að annars geta þeir ekki sofnað. Hér er talað um að það eru heljarinnar göt í fjárlögum, það er eiginlega ekkert að marka fjárlögin. Samt vantar inn í stærstu töluna, jafnvel tvær. Annars vegar er það skuldbinding B-deildarinnar sem eru 400 milljarðar. Nú er spurningin: Ætlar ríkissjóður að standa við kjarasamninga opinberra starfsmanna og greiða þetta eða stendur það ekki til? Ef ég væri forustumaður í stéttarfélagi eða forustumaður fyrir opinbera starfsmenn mundi ég ýta á að þessir 400 milljarðar væru færðir í fjárlög vegna þess að áður en búið er að færa það í fjárlög hafa þeir ekki ríkisábyrgð samkvæmt einmitt 41. gr. stjórnarskrárinnar, sem ég las hér rétt áðan:

„Ekkert gjald má greiða af hendi, nema heimild sé til þess í fjárlögum eða fjáraukalögum.“

Ef ekki er tekið á þessum málum í fjárlögum eða fjáraukalögum, og það kemur að því að B-deildin verður gjaldþrota ef ekki er til peningur, er alveg undir hælinn lagt hvort fjármálaráðherra þess tíma greiðir peningana eða lætur bara sjóðinn rúlla. Það gæti orðið nokkuð áhugavert. Ég held að forustumenn opinberra starfsmanna ættu að ýta á að staðið verði við kjarasamning og þessi skuldbinding færð í fjárlög.

Það hefur nefnilega komið í ljós víða um Evrópu að evruvandi Evrópusambandsins er að miklu leyti vegna þess að menn leika svona leiki að færa ekki, sýna ekki raunverulega stöðu ríkissjóða, sérstaklega í Grikklandi og víðar.

Ég ætla að fara í gegnum einstaka liði í álitinu. Ég veit ekki hversu nákvæmt það er, það er í 41 lið og eins og ég gat um vantar nokkra. Mér finnst vanta inn í álitið samanburð á fjáraukalögum og síðan á ríkisreikningi og lokafjárlögum. Þar á náttúrlega að vera samræmi, það á að stemma vegna þess að það má ekki greiða neitt út úr ríkissjóði eftir að búið er að samþykkja fjáraukalög, þá gilda þau. En svo virðist vera að þarna myndist heljarinnar gat upp á einhverja 40 milljarða, eins og ég gat um. Það mundi ég vilja sjá í næsta áliti fjárlaganefndar um skuldbindingar og ríkissjóðs auk þess sem ég vildi gjarnan sjá umfjöllun um 400 milljarðana hjá B-deild LSR.

En það er furðuleg staða varðandi Íbúðalánasjóð. Það er rétt að þegar ég kaupi hlutabréf sem einstaklingur eða sem ríki læt ég peninga af hendi, ég læt eign af hendi og fæ eign á móti. En það gildir eingöngu þegar það sem ég kaupi í fyrirtæki er með góða eiginfjárstöðu fyrir. Eigin fé Íbúðalánasjóðs hefur verið að hrynja undanfarin ár og mánuði. Það er vegna þess að raunvextir á markaði í landinu eru orðnir mjög lágir og þegar eigið fé Íbúðalánasjóðs minnkar tapar ríkissjóður af því að hann ber ábyrgð á því. Hann ætti þá að færa til gjalda það sem Íbúðalánasjóður tapar. Að mínu mati ætti hann að færa til gjalda það sem vantar upp á 5% sem talið er nauðsynlegt að Íbúðalánasjóður hafi. Þá komum við ekki með svona dæmalausar tilfæringar að kalla þetta eignatilfærslu, að hann láti eign á móti eign vegna þess að Íbúðalánasjóður er í glataðri stöðu og ríkissjóður borgar þangað inn til að bæta þá glötuðu stöðu. Það er svipað og ef hlutafélag verður gjaldþrota og stærsti hluthafinn fer ofan í vasann, borgar og kaupir hlutabréf í fyrirtækinu. Hann er eykur ekki eign sína. Hann er að bjarga fyrirtækinu sem hann átti einhvern tíma og í staðinn fyrir að horfast í augu við raunveruleikann og segja: Fyrirtækið er gjaldþrota, ég er búinn að tapa því, þá bætir hann við. Ég set því stórt spurningarmerki við þessar æfingar með eignafærslu á eiginfjárframlagi til Íbúðalánasjóðs, sem er reyndar gjaldfært en það vantar bara miklu meira. Ég hef ekki upplýsingar um það, ég sit ekki í hv. fjárlaganefnd þannig að ég veit ekki hversu mikið vantar upp á að Íbúðalánasjóður sé með 5% eiginfjárhlutfall, en það er tap ríkissjóðs. En að sjálfsögðu er búið að sópa yfir þann vanda og hann verður leystur af næsta fjármálaráðherra eða þarnæsta.

Fleira má nefna, eins og inneign skuldabréfa í vörslu Þróunarfélagsins. Þar eru að koma í ljós alls konar gallar, hlutabréf hafa ekki verið skráð í lánakerfið og varðandi söluna á Sementsverksmiðjunni var söluverðið aldrei greitt. Það er bara horfið. Ha, getur það verið? Getur maður keypt sér bíl og aldrei borgað hann? Get ég keypt mér hús og aldrei borgað það? Hvernig stendur á því? Hvernig er það hægt? Af hverju var verksmiðjan ekki bara hreinlega gefin?

Svo er talað um sjálfsagða hluti eins og að samræmi sé í viðskiptastöðu efnahagsreikning ríkissjóðs og efnahagsreikning stofnana ríkisins. Það hélt ég að væri í lagi en þarna er verið að vinna að því að koma því í lag og vonandi tekst það. Margt af því sem bent er á eru gamlar syndir og það er alls ekki þannig að það sé núverandi hæstv. ríkisstjórn að kenna. Sumt af því eru mjög gamlar syndir, en auðvitað eru nýjar syndir líka og þær eru safaríkar. Þá tala ég um 12. lið sem er gjaldfærsla, yfirtaka á Sparisjóði Keflavíkur. Þar erum við að tala um stóru tölurnar og er alls ekki komið á hreint hvar það endar í ríkisreikningi. Einhvern tíma endar það í ríkisreikningi og þá mun maður sjá 10 milljarða, 20 milljarða, 30 milljarða, ég veit það ekki. En það er það sem skattgreiðendur vita í dag. Sú skuldbinding er komin, hún liggur fyrir, hún er bara ekki sýnd.

Tilvist eignasafns Seðlabankans, þar eru ágætar athugasemdir. Svo eru ýmsir liðir, yfirtaka á eftirlaunaskuldbindingu í Landsbanka Íslands. Það er eldgamalt mál og ég ætla ekki að fara of nákvæmlega í það. Það er mjög athyglisverð og áhugaverð lesning fyrir þá sem hafa áhuga á því að ríkissjóður skattleggi ekki börnin okkar, það er nefnilega einmitt það sem hann er að gera, hann er að skattleggja börnin okkar. Við erum að skattleggja börnin okkar með því að sýna þeim og öðrum ekki hvað við skuldum raunverulega.

Í 25. lið stendur, með leyfi forseta:

„Stofnanir sem brjóta gegn fjárreiðulögum. Ríkisendurskoðun bendir á að stofnanir með eigin fjárreiður sem stofna til útgjalda umfram fjárheimildir brjóta gegn fjárreiðulögum, reglugerð um framkvæmd fjárlaga og ábyrgð á fjárreiðum ríkisstofnana í A-hluta og eftir atvikum reglum um láns- og reikningsviðskipti ríkisstofnana í A-hluta ríkissjóðs.“

Ekki orð um stjórnarskrána. Það er 41. gr. stjórnarskrárinnar sem er brotin og fyrir mér er stjórnarskráin miklu stærra mál en fjárreiðulög, með allri virðingu fyrir þeim lögum. Þessir forstöðumenn brjóta stjórnarskrána og ég vil bara segja það beint út að það er heilmikið brot og alveg ótrúlegt að svona skuli standa í skýrslunni. En það er gott að það skuli þó standa, að menn skuli segja sannleikann. Það er samt ótrúlegt að það skuli standa að einhverjir fari umfram fjárlög.

Svo eru það 6. greinar heimildirnar sem ég er búinn að gagnrýna alla tíð síðan ég var plataður varðandi Hörpu. Í 6. gr. fjárlaga stóð einhvern tíma fyrir langalöngu að ríkinu yrði gert heimilt að gera samning við eitthvert hlutafélag og ekki orð um það meir. Ég held að hlutafélagið heiti Portus. Svo gerði ríkissjóður samning við hlutafélagið og upp úr því spratt 35 milljarða skuldbinding. Það var ekki orð um það í 6. greinar heimildinni hvað það gæti orðið stórt og mikið. Það erum við að gera enn í dag. Ég nefni Vaðlaheiðargöng og sitthvað fleira. Og ekki gleyma háskólasjúkrahúsinu. Setja þarf upphæðir við allar ríkisábyrgðir eða ríkisheimildir og ekki hafa opnar heimildir. Ég les það út úr stjórnarskránni að það verði að gera það. Það má ekki greiða neitt gjald úr ríkissjóði nema heimild sé til þess í fjárlögum og fjáraukalögum og sú heimild getur ekki verið opin. Það getur ekki verið frá einni krónu upp í 30 milljarða. Það verður að segja hver upphæðin er.

Síðan er rætt um áætlanir á skatttekjum. Það er nokkuð sem ég tel að skattstjóri eigi að leysa með allt öðrum hætti. Það er voðalega auðvelt að áætla eitthvað á einhvern einstakling og segja: Heyrðu, hann skuldar 3 millj. kr. í virðisaukaskatt eða eitthvað slíkt. Næsti. Auðvitað á að hafa samband við þetta fólk og hjálpa því til að telja fram því að oft er það spurning um fælni.

Ég ætla ekki að fara mikið nákvæmar í álitið en hér er talað um Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins, sameiningu Lífeyrissjóðs hjúkrunarfræðinga við B-deild. Mér finnst að Alþingi eigi að taka sér tak nú þegar og samþykkja að stöðva iðgjaldagreiðslur í B-deild af því að eitthvað um 5 þúsund manns, ég er ekki búinn að kíkja á það nýlega, opinberir starfsmenn greiða enn í B-deild og afla sér réttinda sem ekki er búið að færa yfir. Þeir fá lífeyrisréttindi sem eru stundum ótrúlega góð og skattgreiðendur borga einhvern tíma í framtíðinni, þ.e. börnin okkar.

Svo er það Harpa. Hún átti að standa undir sér með einhverjum tekjum, hún gerir það að sjálfsögðu ekki, ekki frekar en þessi menningarmusteri öll. Ég ætla að vona að ég hafi ekki sagt að eitthvert menningarmusterið standi ekki undir sér sem gerir það samt, ég hef ekki kannað það nákvæmlega en mér sýnist mjög oft vanta upp á þar. Það sama á að gilda um háskólasjúkrahúsið. Menn segja: Það er ekkert mál að byggja eitt stykki háskólasjúkrahús fyrir 50 milljarða eða 40 milljarða eða hvað það nú er. Hagræðingarnar í rekstrinum borga það. Ég man eftir því af því að ég hef gott minni að þegar Borgarspítalinn og Landspítalinn voru sameinaðir átti hagræðingin af rekstrinum að vera svo og svo mikil af sameiningunni. Ég hef ekki séð það enn þá og ég er jafntortrygginn á fullyrðingar um að hagræðing í rekstri Landspítalans borgi þá risabyggingu að ég ætla að leyfa mér að vera tortrygginn þangað til einhver er tilbúinn að borga þann mismun ef hagræðingin dekkar hann ekki. Það væri gaman að heyra einhvern segja: Ég skal bara borga þetta, af því að ég treysti því að þetta muni ekki koma upp, ég treysti því að hagræðingin sé svo mikil. Þá líður mér kannski pínulítið betur, ekki mikið því að það munar ekkert um það.

Ég er búinn að nefna skuldbindingar á B-deildinni og ég hef svo sem oft bent á það furðulega fyrirbæri þegar menn gengu í Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins eins og einhverja jötu sem menn geta bara gengið í. Starfsfólk ASÍ var tryggt þar inni og einnig Bændasamtökin, að ég held, o.s.frv. Alls konar aðilar voru tryggðir í Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins og aðallega B-deildinni. Það eru gífurlegar skuldbindingar fyrir ríkissjóð og þar með skattgreiðendur.

Þetta var um álit fjárlaganefndar. Ég endurtek að ég er mjög ánægður með álit fjárlaganefndar. Ég er mjög ánægður með skýrslu Ríkisendurskoðunar um endurskoðun ríkisreiknings. Ég held að það sem við Íslendingar þurfum að gera á næstu árum er að taka okkur tak í fjármálalegum aga, þá á ég ekki bara við ríkissjóð, ég á líka við sveitarfélögin, fyrirtæki og einstaklinga, að menn sýni fjármálalegan aga. Ef þeir kaupa sér bíl hafa þeir efni á að kaupa bíl og geta borgað hann. Ef menn kaupa sér hús hafa þeir efni á að kaupa sér hús og geta borgað það. Og ef ríkissjóður ætlar að gera eitthvað gott, t.d. auka við Fæðingarorlofssjóðinn, eitt dæmið, er búið að gera ráð fyrir kostnaðinum sem fellur á eftir þrjú, fjögur eða fimm ár, en það er ekki svo, frú forseti. Það er ekki búið að reikna með þeim kostnaði. Skuldbindingin er bara aukin.

Nú förum við í kosningar og allir brosa hringinn vegna þess að búið er að bæta stöðu Fæðingarorlofssjóðs. Foreldrarnir fá lengra fæðingarorlof og hærri fæðingarorlofsgreiðslur og allt er það ægilega fallegt, en það á bara eftir að borga það. Það þarf að fara að segja fólki, jafnt kjósendum sem stjórnmálamönnum, að öll loforð þarf að efna.